23:06:38
Andrew Bynum, miðherji LA Lakers verður frá keppni í 2 til 3 mánuði vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Memphis Grizzlies í fyrradag.
Bynum er með rifið liðband í hægra hné, en þessar fréttir vekja upp óþægilegar minningar frá í fyrra þegar hann meiddist á hné í janúar og lék ekki meira með liðinu það tímabil. Þau meiðsli voru af öðrum toga þar sem hann hlaut beinmar auk þess sem hnéskelin hans hrökk úr sínum stað í stuttan tíma.
Nánar hér að neðan…
Það sem svíður enn meira er að Bynum, sem er 21 árs, var farinn að spila eins og sá sem valdið hafði. Í síðustu fimm leikjum var hann með að meðaltali 26.2 stig, 13.8 fráköst og 3.2 varin skot auk þess sem hann hitti úr 65.3% skota sinna utan af velli.
Phil Jackson, þjálfari Lakers, sagði að vissulega yrði Bynums saknað, en hann hefði fulla trú á liðinu. „Þetta lið sem er hér á vellinum er sama liðið og fór í NBA-úrslitin í fyrra, þannig að við vitum hvað í okkur býr. Við eigum eftir að sakna hans, sérstaklega í fráköstunum, en þetta er afar frambærilegt lið engu að síður.“
Kobe Bryant sagði fyrir leik í dag að fjarvera Bynums myndi breyta taktinum í liðinu. „Við vorum augljóslega að finna okkur vel með hann í liðinu, sérstaklega síðustu viku eða svo, þannig að við þurfum að gera einhverjar breytingar.”
Hann bætti því við að þrátt fyrir allt gætu Lakers unnið titilinn án Bynums.
„Mörg lið hafa tapað í úrslitum og svo unnið árið eftir. Með Andrew í liðinu erum við yfirburðalið, en án hans erum við samt mjög gott lið. Með hann í hópnum erum við hins vegar á öðru plani.”
ÞJ