Fjölnismenn keyptu sér örstutt andrými í Domino´s deild karla í kvöld með gríðarlega mikilvægum sigri á Skallagrím. Hnífjafn og spennandi fyrri hálfleikur breyttist í eign Fjölnis í þeim síðari að tilstuðlan Bustion-áhrifanna. Baráttan og eljan í kappanum minna óneitanlega á landsliðsjaxlinn Hlyn Elías Bæringsson og þar er nú ekki leiðum að líkjast. Bustion sem prímusmótor í sveit Fjölnis kveikti neistann og hélt honum á lífi í kvöld uns Fjölnir fagnaði 88-78 sigri.
Davíð Ingi Bustion fór af stað með látum í liði Fjölnismanna, það þarf ekki að spyrja að því að drengurinn var að berjast en einnig voru bakverðir Fjölnis að finna hann lausan í teignum og Davíð að skrá á þá stoðsendingar. Davíð gerði 10 af fyrstu 18 stigum Fjölnis í leiknum en hjá gestunum í Borgarnesi var Tracy Smith að leika Mitchell grátt í liði Fjölnis. „Tempóið“ góða var hátt eins og gefur að skilja enda mikið í húfi en staðan 20-18 fyrir Fjölni eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta var enn hnífjafnt á með liðunum, Fjölnismenn virtust ögn viljugri til að spila hraðari leik en það voru samt sem áður gestirnir úr Borgarnesi sem náðu að búa til smá bil. Skallagrímsmenn komust í 32-37 en Fjölnismenn mokuðu fljótt upp í þá holu og jöfnuðu leikinn svo staðan var 38-38 í hálfleik.
Fjörugur fyrri hálfleikur, nokkuð mistækur á báða bóga en Davíð Ingi Bustion leiddi Fjölni í hálfleik með 12 stig og Tracy Smith Jr. með 12 stig í liði Skallagríms.
Fjölnismenn stáluðu hnífana betur í hálfleik, komu út með 10-4 skvettu þar sem Davíð Ingi Bustion var í #Bustmode rétt eins og í byrjun leiks. Davíð Ingi fékk þó sína fjórðu villu þegar þegar sex mínútur voru eftir af leikhlutanum og hélt sig hægan á tréverkinu eftir það í þriðja hluta.
Vörn gestanna hafði gefið eftir frá fyrri hálfleik og skotvalið var ekki gott. Arnþór Freyr kom Fjölni í 52-44 með þrist og þar skömmu á eftir fylgdi Ólafur Torfason með annan slíkan og staðan 57-47 fyrir Fjölni. Heimamenn fóru með 61-52 forystu inn í fjórða leikhluta og stemmninguna sín megin þrátt fyrir góða frammistöðu stuðningssveitar Skallagríms.
Flestir biðu eftir batamerkjum á leik Borgnesinga í fjórða hluta en þau voru afar lítil. Fjölnismenn héldu þeim jafnan í um það bil 10 stiga fjarlægð en aðeins á einum kafla náði Sigtryggur Arnar að minnka muninn í sex stig, 78-72 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þarna var smá ljóstýra en hún hvarf fljótt í fimmtu villu Tracy Smith. Eltingaleikur varð uppi á teningnum við endasprettinn sem kallaði Fjölni alloft á vítalínuna, frammistaða þeirra á góðgerðarlínunni var afleit sem og í leiknum öllum, aðeins 58% vítanýting sem er í besta falli hræðilegt. Þetta kom ekki að sök að sinni, Davíð Ingi trukkaði menn eins og Arnþór, Garðar og Róbert í gang og Fjölnir kláraði verkið 88-78.
* Páll Axel Vilbergsson lék ekki með í liði Skallagríms í kvöld en hann er að glíma við meiðsli.
* Sindri Kárason var fjarverandi í liði Fjölnis vegna veikinda.
* Nýja uppáhalds „hash-tag-ið“ okkar er #Bustmode – útleggst sem fyrirmyndar alhliðavinnsla eins leikmanns innan kappleikjar.
* Samkvæmt heimildum Karfan.is á Fjölnir sigurinn að miklu leyti að þakka Þorgrími Þráinssyni!
*Vítanýting Fjölnis í kvöld var sú sjötta versta á tímabilinu hjá einu liði í Domino´s deild karla. Heiðurinn að verstu nýtingunni eiga nýliðar Tindastóls sem er 38%.