Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera í úrslitakeppninni, blóð og sviti koma þar ansi oft við sögu og þannig var mál með vexti í Stykkishólmi í kvöld. Þeir Sean Burton og Jón Ólafur Jónsson þurftu báðir að heimsækja saumnálina hjá lækninum eftir viðureign Snæfells og Stjörnunnar þar sem Garðbæingar höfðu betur.
Burton fékk högg á munninn í fyrri hálfleik og þurfti einhver 2-3 spor í munn eftir samstuðið. Ingi Þór Steinþórsson sagði við Karfan.is í kvöld að reynt hefði verið að stöðva blæðinguna með því að setja bómul í munn leikmannsins.
Þá hlaut Jón Ólafur Jónsson áverka eftir samstuð við Jovan Zdravevski leikmann Stjörnunnar og þurfti Jón einnig 2-3 spor svo Íslands- og deildarmeistarar Snæfells mæta með um það bil 5 spor í farteskinu til Garðabæjar á þriðjudag.
Ingi Þór kvittaði undir að blóðgaðir leikmenn Snæfells og tap á heimavelli í úrslitakeppninni væri engin nýung hjá Hólmurum sem í fyrra sáu m.a. myndarlegan skurð á Emil Þór Jóhannssyni í einvíginu gegn Keflavík og vörðu heimavöllinn illa en stóðu sig það vel á útivelli að það færði þeim Íslandsmeistaratitil.
Ljósmynd/ Þorsteinn Eyþórsson: Burton þurfti 2-3 spor í munn eftir leik kvöldsins.