spot_img
HomeFréttirBúbót í Garðabæ: Pantelic og Ólafur í blátt

Búbót í Garðabæ: Pantelic og Ólafur í blátt

 
Subwaybikarmeistarar Stjörnunnar hafa bætt í búið hjá sér fyrir lokasprettinn í Iceland Express deild karla því kominn er serbneskur miðherji til liðs við félagið að nafni Djordje Pantelic. Þá hefur Ólafur Jónas Sigurðsson ákveðið að segja skilið við Danmörku og mun ganga til liðs við Stjörnuna og klára með þeim tímabilið. Ólafur er væntanlegur til landsins á mánudag en Pantelic verður í búning í kvöld þegar Stjarnan mætir á Selfoss.
,,Hann lítur vel út, er stór og sterkur og góður inni í teig en getur líka farið út fyrir og skotið,“ sagði Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður KKD Stjörnunnar í samtali við Karfan.is. ,,Með þessum tveimur viðbótum ofan á þann sterka hóp sem við erum með þá erum við til alls líklegir. Auk þess er Guðjón Lárusson óðar að komast í form,“ sagði Gunnar en Guðjón hefur verið að stíga sín fyrstu skref undanfarið eftir langvarandi meiðsli.
 
Djordje Pantelic er 26 ára gamall og 206 sm. að hæð, hann lék síðast í Rúmeníu með Steua Turabo Bucharest. Ólafur kemur frá Aabyhøj í Danmörku og hefur að meðaltali leikið 24 mín, verið með 5,4 stig, 2,3 stoðsendingar og 2,4 fráköst í hverjum leik. Ólafur mun eflaust nýtast Stjörnumönnum vel i baráttunni um titilinn og mun hann mæta á sína fyrstu æfingu næsta mánudag.
 
Ljósmynd/ Ólafur er á heimleið en hér er hann í leik með Aabyhøj. Ólafur mun væntanlega leika sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna næsta fimmtudag er hann mætir sínum gömlu félögum í ÍR.
 
Fréttir
- Auglýsing -