spot_img
HomeFréttirBrynjar Þór fer ekki til High Point

Brynjar Þór fer ekki til High Point

07:00
{mosimage}

 

(Brynjar Þór Björnsson) 

 

Ekkert verður af för Brynjars Þórs Björnssonar til bandaríska háskólans High Point í Bandaríkjunum næsta haust en skólayfirvöld samþykktu ekki að Brynjar stundaði nám við skólann. Brynjar fékk þær útskýringar að skólinn hefði þegar verið búinn að hafna fjölda alþjóðlegra stúdenta og að umsóknarfresturinn fyrir erlenda námsmenn hefði verið löngu útrunninn þegar þjálfarar skólans tjáðu Brynjari að þar myndi hann verða næstu fjögur árin. Brynjar sagðisti í samtali við Karfan.is vera mjög ósáttur við þessi vinnubrögð þjálfaranna og að málið í heild sinni væri mjög svekkjandi.

 

Brynjar Þór á að baki fjögur leiktímabil með meistaraflokki KR og nú þegar síðasta leiktíð var nýbúin bárust þær góðu fréttir frá Bandaríkjunum að Brynjar hefði verið búinn að tryggja sér skólastyrk til náms og körfuknattleiksiðkunar í High Point að andvirði allt að 10 milljóna króna. ,,Fyrir u.þ.b. viku síðan höfðu þjálfarar liðsins samband við mig og sögðu mér frá afsvarinu. Ég var búinn að skrifa undir ,,letter of intent” (yfirlýsing um að hann myndi ekki ræða við aðra skóla) og yfirmaður íþróttamála hjá High Point var líka búinn að vera með mitt mál á sínu borði. Það kom svo í ljós að skólayfirvöld höfðu hafnað fjölda erlendra stúdenta og að umsóknarfresturinn væri löngu útrunninn. Þetta fannst mér mjög skrýtið þar sem þjálfarar liðsins vissu að ég myndi taka SAT prófið (stöðupróf sem þarf að taka til að komst inn í bandaríska háskóla) núna í júní og það er óhætt að segja að þetta hafi komið mér í opna skjöldu,” sagði Brynjar og vonbrigðin leyndu sér ekki enda um risavaxið tækifæri að ræða þar sem High Point er virtur skóli í Norður-Karólínufylki Bandaríkjanna.

 

,,Þjálfarar liðsins spurðu mig samt hvort ég hefði áhuga á því að koma til þeirra haustið 2009. Mín viðbrögð við þeirri spurningu voru blendin og ég verð að íhuga það mál þegar þar að kemur en kannski finnur maður sér annan skóla. Ég stefni á háskólanám í haust og hef t.d. hafnað öðrum skóla í Bandaríkjunum sem sendi mér tilboð á dögunum,” sagði Brynjar í samtali við Karfan.is en hann kvaðst ekki fyllilega ánægður með þann skóla og leist honum ekki vel á aðstæður í kringum skólann. ,,Sá skóli sem umræðir heillaði mig ekki til fjögurra ára. Körfuboltinn er ekki allt og skólahliðin sem og félagslífið við skólann þarf að vera í góðu lagi,” sagði Brynjar sem er enn að vinna í þessum málum.

 

,,Ég á von á því að þetta ráðist á næstu vikum en það er alls ekki slæmt að vera á Íslandi. Hér eru góðir skólar og góður körfubolti svo það er alls engin endastöð að vera hér eitt ár til viðbótar ef mér tekst ekki að komast að í Bandaríkjunum núna,” sagði Brynjar Þór sem á dögunum var valinn í 23 manna æfingahóp A-landsliðsins svo hann situr ekki auðum höndum.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -