spot_img
HomeFréttirRúmlega 80% leikmanna á Íslandi vilja banna auglýsingar á leikvelli

Rúmlega 80% leikmanna á Íslandi vilja banna auglýsingar á leikvelli

Rúmlega 80% fyrrverandi og núverandi leikmanna bæði karla og kvenna í íslenskum körfubolta eru ýmist sammála eða mjög sammála því að banna auglýsingar á leikvelli vegna meiðslahættu. Um 90% leikmanna telja gólfauglýsingar sleipari en annar hluti vallarins. Tæplega þriðjungur leikmannanna hefur lent í meiðslum sem rekja má beint til þessara auglýsinga en rúmlega 80% leikmanna hafa sjálfir orðið vitni að meiðslum annars leikmanns vegna gólfauglýsingar.

Þetta eru meginniðurstöður könnunar sem Íslenskur Toppkörfubolti (ÍTK) framkvæmdi í samstarfi við karfan.is og aðgengileg var á heimasíðu karfan.is dagana 6.-8. maí síðastliðinn. Alls bárust svör frá 141 leikmanni en útfrá svörum þeirra um leikjafjölda hefur þessi hópur spilað í kringum 16.400 leiki. Tiltölulega lítill munur var á svörum eftir kyni, aldri, leikjafjölda eða hvort um væri að ræða núverandi leikmenn eða fyrrverandi. 

Það hefur lengi verið lágvær umræða um að leikmenn séu að meiðast á slíkum auglýsingum hér á landi. Umræðan varð síðan verulega hávær eftir að Remy Martin leikstjórnandi Keflavíkur meiddist illa í öðrum leik 4-liða úrslitanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla fyrir skemmstu þegar hann rann til á gólfauglýsingu. Meiðslin eru það mikil að hann spilar ekki meira með Keflavík á þessu tímabili.

Í kjölfarið sendi stjórn ÍTK frá sér ályktun þar sem lagt er til að þessar auglýsingar verði bannaðar enda sé allt of mikil meiðslahætta sem fylgi þeim. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að leikmenn meiðast ekki bara í leikjum heldur einnig á æfingum og er jafnvel líklegra að leikmenn meiðist þar en í leikjum enda eyða þeir mun meiri tíma á æfingum en í leikjum.

ÍTK telur ótækt að bjóða leikmönnum upp á þessar aðstæður sérstaklega í ljósi þess hversu mikið leikmenn eru að meiðast vegna auglýsinga eins og könnunin sýnir og að meiðslin geti verið þetta alvarleg. Það eru ekki bara leikmennirnir sjálfir og félög þeirra sem verði fyrir skaða þegar leikmaður dettur í meiðsli heldur setur þetta íslenskan körfubolta einfaldlega niður á lægra og óeftirsóknarverðara plan.

Slík meiðsli geti hæglega endað feril leikmanna og þetta sé í rauninni óverjandi staða. Í þessu sambandi má benda á að frá og með næsta tímabili verða auglýsingaskilti úr málmi sem sitja meðfram leikvelli bönnuð og það einungis vegna meiðslahættu. Nota ætti tækifærið nú til þess að banna einnig gólfauglýsingar.

Fréttir
- Auglýsing -