Íslandsmeistarar KR fögnuðu á dögunum þegar Brynjar Þór Björnsson kvittaði undir nýjan samning í DHL-Höllinni. Nú er hlaupið á snærið hjá skyttunni sem hefur samið við Jamtland í sænsku úrvalsdeildinni og sögn framkvæmdastjóra Jamtlands er allt eins búist við því að Brynjar taki sér strax sæti í byrjunarliði félagsins.
Á heimasíðu sænska sambandsins segir að Brynjar sé genginn til liðs við Jamtland en þar kemur einnig fram að Hlynur Bæringsson hafi gert eins árs framlengingu við meistara Sundsvall Dragons.
Hrafn Kristjánsson þjálfari meistara KR sagði í samtali við Karfan.is þegar Brynjar kvittaði undir nýja samningin að félagið hérlendis myndi ekki standa í vegi Brynjars ef honum tækist að koma sér að hjá klúbbi erlendis. Það er því orðið ljóst að KR mun ekki endurheimta þá Brynjar né Marcus Walker í titilvörnina en næsta öruggt er að Marcus muni ekki leika hérlendis á næstu leiktíð heldur komi sér fyrir í stærri deild.
Á síðustu leiktíð voru þeir Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson á mála hjá Sundsvall, Logi Gunnarsson hjá Solna Vikings og Helgi Magnússon hjá Uppsala Basket. Nú bætist Brynjar Þór í þennan hóp en hann er einnig í 26 manna hópnum sem nýji landsliðsþjálfarinn Peter Öqvist tilkynnti á dögunum.
Jakob og Hlynur fóru með Sundsvall í gegnum Jamtland í undanúrslitum sænsku deildarinnar á síðustu leiktíð, oddaleik þurfti til að skera úr um hvort liðið kæmist áfram í úrslitin. Oddaleikinn vann Sundsvall 83-67.