17:10
{mosimage}
(Bryndís í leik með Keflavík í hinum sögufræga bikarúrslitaleik gegn Haukum árið 2007)
Með 20,0 stig að meðaltali í leik eftir fyrstu fjóra leiki Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna á síðustu leiktíð mátti Bryndís Guðmundsdóttir sætta sig við að taka sér stöðu á varamannabekk liðsins. Í leik með unglingaflokki Keflavíkur meiddist Bryndís illa og hefur síðan þá verið frá leik og fylgdist með vinkonum sínum sópa Haukum og KR út í sumarið og fagna Íslandsmeistaratitlinum. Karfan.is náði á Bryndísi sem fór á eina æfingu með Keflavík í síðustu viku en samkvæmt ráðleggingum sjúkraþjálfara gæti hún verið komin af stað við æfingar eftir mánuð.
„Nú er bara allt ágætt að frétta, ég er á réttri leið og fór á æfingu með Keflavík á þriðjudag í síðustu viku. Síðasta fimmtudag fór ég svo til sjúkraþjálfara og lumaði því að henni hvort ég gæti byrjað að æfa en hún sagði mér að það mætti í fyrsta lagi eftir mánuð,“ sagði Bryndís sem í kjölfarið missir af landsliðsverkefnum með kvennalandsliðið Íslands sem æft hefur af kappi í sumar.
„Ég og Jón Halldór þjálfari Keflavíkur ákváðum það í samráði að ég myndi ekki taka þátt í landsliðsverkefnum þetta sumarið. Ég er ekki orðin nægjanlega sterk í þessi verkefni en stelpurnar í landsliðinu hafa æft í allt sumar og ég væntanlega ekki í jafn góðu formi og þær,“ sagði Bryndís sem þó hefur verið samviskusöm og gert styrktaræfingar fyrir meidda hnéð. Norðurlandamót kvennalandsliða er fyrstu helgina í ágúst og svo þrír landsleikir í riðlakeppni B-deildar Evrópukeppninnar í september.
„Nú er farið að sjá fyrir endann á þessum meiðslum mínum og ég stefni að því að ná að byrja næsta tímabil. Ég hef verið að vinna vel í mínum málum en þetta er hundleiðinlegt og ég nenni ekki að standa í þessu aftur,“ sagði Bryndís sem í sumar starfar hjá Sparisjóðnum í Keflavík.
Bryndís er á meðal sterkustu leikmanna landsins og verður það mikilvægt fyrir Keflavík að fá hana aftur inn í hópinn sem og Marín Rós Karlsdóttur sem einnig sleit krossbönd í hné á síðustu leiktíð. Marín er annar tveggja fyrirliða Keflavíkur en hinn er Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir.
Myndir: Jón Björn Ólafsson, [email protected]
{mosimage}