Skrifræði hjá FBI hefur áhrif á komu bandarískra leikmanna til landsins.
Laugardaginn 28. ágúst síðastliðinn ritaði Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, eftirfarndi grein. Hún er nú endurbirt hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi höfundar og miðilsins:
Talsverð óvissa ríkir nú innan körfuknattleikshreyfingarinnar vegna breyttra reglna Útlendingastofnunar um dvalarleyfi Bandaríkjamanna á Íslandi. Forráðamenn félaganna óttast að vegna breytinganna muni taka langan tíma að fá bandaríska körfuknattleiksmenn til landsins. Sé sá ótti á rökum reistur mun landslagið í íslenskum körfuknattleik breytast til mikilla muna.
Í tilkynningu á vef Útlendingastofnunar frá 6. ágúst síðastliðnum kemur eftirfarandi fram: Frá 1. september nk. þurfa einstaklingar sem búsettir hafa verið í Bandaríkjunum undanfarin 5 ár og hyggjast sækja um dvalarleyfi á Íslandi að skila inn sakavottorði frá alríkislögreglunni (FBI). Sakavottorð frá einstökum fylkjum eru ófullnægjandi þar sem þau ná einungis yfir það tiltekna fylki sem gefur vottorðið út og erfitt hefur verið að fá þau staðfest af viðeigandi stjórnvöldum.
Þessar breytingar á reglum um dvalarleyfi virðast ekki hafa komist í hámæli innan körfuknattleikshreyfingarinnar fyrr en í síðustu viku. Þar sem um FBI er að ræða en ekki staðbundnar stofnanir í Bandaríkjunum, er rökrétt að gera ráð fyrir meira skrifræði og þar af leiðandi lengri afgreiðslutíma. En hversu langan tíma mun það taka fyrir FBI að afgreiða sakavottorð sem bandarískir körfuknattleiksmenn þurfa að framvísa til þess að fá að spila á Íslandi? Um það snýst málið því tveir viðmælendur Morgunblaðsins, sem lifa og hrærast í körfuboltanum, telja að afgreiðslutíminn sé 8-12 vikur.
Reynsla Skagfirðinga
Ef tekið er mið af reynslu Skagfirðinga í Tindastóli frá því fyrr í sumar þá getur tekið margar vikur að afgreiða sakavottorð hjá FBI. Forráðamenn Tindastóls tjáðu Morgunblaðinu að þeir hefðu samið við Bandaríkjamanninn Josh Rivers fyrr í sumar. Í stað þess að sækja um sakavottorð hjá stofnun í sínu fylki, eins og hingað til hefur nægt, þá sótti Rivers um vottorð hjá FBI fyrir mistök. Eftir að ferlið var komið í gang var honum tilkynnt að hann fengi það ekki í hendurnar fyrr en 12. september. Það þótti Sauðkrækingum heldur seint í rassinn gripið og riftu samningnum við leikmanninn á þeim forsendum. Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig til að skömmu síðar munu FBI vottorðin verða nauðsynlegur þáttur í ferlinu. Þeir hafa nú samið við Bandaríkjamann með ítalskt vegabréf og eru því búnir að gera þær ráðstafanir sem þeir vildu gera.
Ef rétt reynist að félögin þurfi að bíða í margar vikur eftir því að bandarískir leikmenn fái dvalarleyfi þá mun það breyta landslaginu talsvert í körfuboltanum. Fyrir það fyrsta, þá er hæpið að félög muni reka bandaríska leikmenn heim á miðju tímabili ef þeir geta ekki útvegað sér annan innan fárra vikna. Einnig mun kostnaðurinn af því að semja við bandaríska leikmenn aukast. Nauðsynlegt verður að tryggja sér starfskrafta þeirra í maí eða júní til þess að þeir geti hafið leik þegar Íslandsmótið hefst á haustin. Á þeim árstíma vilja slíkir atvinnumenn skoða alla möguleika í Evrópu og litla Ísland er þá sjaldnast í forgangi. Þar af leiðandi þarf að bjóða þeim betri kjör á vorin heldur en í ágúst þegar þeir eiga orðið færri valmöguleika. Ofan á þetta bætist að Bandaríkjamenn með tvöfalt ríkisfang verða mun verðmætari og dýrari en áður.
Komum okkar sjónarmiðum á framfæri
Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambandsins, sagði menn á þeim bæ hafa unnið í málinu síðan það kom upp og hann er nokkuð bjartsýnn á að reglubreytingin muni ekki hafa eins mikil áhrif og menn óttast.
»Við áttum mjög góðan fund í dag (í gær) með fulltrúum Útlendinga- og Vinnumálastofnunar. Þeir útskýrðu fyrir okkur að hugmyndin hafi verið sú að einfalda kerfið frekar en hitt. Stundum var þetta þannig, að þessir aðilar sem voru að fá sakavottorð frá hinum ýmsu stofnunum í Ameríku, fengu þau ekki frá réttum aðila og þá þurfti að byrja ferlið upp á nýtt. Vottorðin komu frá hinum og þessum stofnunum og því var þetta svolítið ruglingslegt. Hugmyndin hjá Útlendingastofnun var því að vottorðin kæmu bara frá einni stofnun FBI og ég skil það vel að þau vilji einfalda þetta. Svo á eftir að koma í ljós hversu langan tíma ferlið mun í raun taka. Þau könnuðust ekki við að 8-12 vikna biðtími væri borðliggjandi,« sagði Friðrik í samtali við Morgunblaðið í gær og hann er nokkuð bjartsýnn. »Við komum okkar sjónarmiðum á framfæri um að þetta gangi hratt og vel fyrir sig. Það er vilji til þess hjá þessum stofnunum að finna leiðir til að þetta taki sem skemmstan tíma,« sagði Friðrik ennfremur.
Morgunblaðið 28. ágúst 2010