spot_img
HomeFréttirBrenton ,,Sweet Daddy” Birmingham orðinn Hall of Famer

Brenton ,,Sweet Daddy” Birmingham orðinn Hall of Famer

 
Brenton Birmingham var á dögunum tekinn inn í Hall of Fame hjá gamla skólanum sínum Manhattan College. Var það gert með viðhöfn og ljóst að fólk við Manhattan College hefur engu gleymt í sambandi við Brenton. Í grein á heimasíðu skólans er viðtal við Brenton og m.a. lýsing á því þegar hann steig sín fyrstu spor með Jaspers (nafn skólaliðsins). Þá var kauði í ham, setti niður 26 stig og jafnaði þriggja stiga met skólans þegar hann skoraði úr 6 af 7 þristum sínum í leiknum. Það urðu einnig ánægjulegir endurfundir á dögunum þegar Brenton var veittur þessi virðingarvottur en þá hitti hann fyrir gamla skólafélaga og fjölskyldumeðlimi.
Á sínum tíma með Jaspers fékk Brenton viðurnefnið ,,Sweet Daddy” og kemur það m.a. fram í greininni á skólasíðunni sem lesa má hér. Brenton var ekki einn á ferðinni til þess að verða innleiddur í frægðarhöll Manhattan College heldur fóru með honum Berglind Sigþórsdóttir unnusta hans og Þórunn María Þorbergsdóttir sem hefur oftar en ekki verið kölluð íslensk móðir Brentons.
 
Ytra hitti Brenton einnig Ines móður sína, Dwight bróður sinn og vin sinn og fyrrum leikmann UMFN, Jason Hoover sem lék með Njarðvíkingum árið 1999.
 
,, Skólinn hans er kristilegur skóli og athöfnin byrjaði í kirkju um miðjan dag, síðan var farið í fordrykk í samkomusal skólans, eftir það var kvöldverður og verðlauna afhending.
Það var mjög gaman að sjá hvað hann er vel þekktur þarna og borin mikil virðing fyrir honum þegar hann var kynntur. Þeir höfðu beðið í 35 ár eftir titli þegar hann mætti á staðinn. Skólameistarinn kom og sagði okkur að það vantaði fleiri eins góðar fyrirmyndir eins og Brenton bæði á velli og eins utan hans og í skólanum,” sagði Þórunn María og ljóst að hún var hrifin af því hvernig að öllu var staðið við innleiðingu Brentons í frægðarhöllina.
 
Að loknum skólaárum hélt Brenton til Íslands og eins og þeir segja í henna Ameríku: ,,And the rest is history” – enda Brenton einn sá besti sem leikið hefur hérlendis.
 
Ljósmyndir/ Þórunn María Þorbergsdóttir

nonni@karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -