Nýlega undirrituðu Sigríður Jónína Helgadóttir formaður körfuknattleiksdeildar Breiðabliks og Gunnar Guðjónsson forstjóri Opinna kerfa veglegan samstarfssamning. Opin kerfi mun styrkja með öflugum hætti við starf körfuknattleiksdeildarinnar, bæði við meistaraflokkana sem og yngriflokkastarf félagsins. Merki Opinna kerfa verður því á öllum keppnisbúningum félagsins og merki OK Búðarinnar á búningum meistaraflokkanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Blikum.
Breiðablik fagnar þessum tímamótasamningi sem felur í sér mikilvægan stuðning við metnaðarfullt uppbyggingarstarf félagsins. Mikill uppgangur hefur verið í starfi körfuknattleiksdeildar á undanförnum mánuðum og félagið heldur núna úti æfingum í um 20 aldursflokkum stúlkna og drengja allt frá leikskólaaldri. Breiðablik sendi í ár til leiks meistaraflokk kvenna eftir nokkurt hlé sem byggir á ungum og efnilegum stúlkum sem eru að koma upp úr yngri flokkum. Meistaraflokkur karla er sömuleiðis skipaður ungum og efnilegum uppöldum Blikum og eru þeir í harðri baráttu um úrvalsdeildarsæti þrátt fyrir að vera eitt fárra liða í deildinni sem teflir ekki fram erlendum leikmönnum.
Opin kerfi er leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni á Íslandi og sérhæfir sig í sölu og þjónustu við tölvubúnað og hugbúnaðarlausnir. Helstu samstarfsaðilar Opinna kerfa eru HP, Microsoft og Cisco. Opin kerfi eru traustur samstarfsaðili sem hefur viðskiptavininn ávallt í fyrirrúmi. Áralöng reynsla og þekking starfsmanna fyrirtækisins tryggir viðskiptavinum Opinna kerfa bestu, áreiðanlegustu og hagkvæmustu þjónustu sem völ er á.
www.breidablik.is