spot_img
HomeFréttirBradford rekinn frá Kataja í Finnlandi

Bradford rekinn frá Kataja í Finnlandi

 
Finnska úrvalsdeildarliðið Kataja hefur rekið Bandaríkjamanninn Nick Bradford frá félaginu. Ástæður brottrekstrarins munu vera þær að Bradford hafi sýnt liðinu og öðrum leikmönnum þess óvirðingu. Bradford er körfuknattleiksáhugafólki á Íslandi að góðu kunnur en hér hefur hann farið mikinn með Suðurnesjaliðunum Keflavík og Grindavík.
Bradford var ein helsta vítamínsprauta Grindavíkur sem hampaði silfurverðlaunum í Iceland Express deildinni á síðustu leiktíð eftir oddaleik gegn KR í DHL-Höllinni um Íslandsmeistaratitilinn.
 
Í lok október á síðasta ári gekk Bradford til liðs við Kataja og í þeim 16 leikjum sem hann lék fyrir félagið gerði hann 12,6 stig, tók 5 fráköst og lék að jafnaði í 27 mínútur í leik.
 
Með Bradford innanborðs vann Kataja 8 leiki og tapaði 8 en félagið er sem stendur í 9. sæti finnsku úrvalsdeildarinnar með 8 sigra og 16 tapleiki. Búist er við því að Kataja fái sér annan Bandaríkjamann til liðsins eins fljótt og auðið er.
 
Eflaust verður Bradford sýndur áhugi af íslenskum úrvalsdeildarliðum enda hefur kappinn margsannað sig hérlendis.
 
Fréttir
- Auglýsing -