spot_img
HomeFréttirBradford illa leikinn eftir heimsókn til læknis

Bradford illa leikinn eftir heimsókn til læknis

16:30
{mosimage}

(Nick Bradford er óðum að jafna sig eftir að hann hlaut slæman skurð á hökunni)

Flestir fara til læknis til að fá meina sinna bót en því var þveröfugt farið hjá Nick Bradford á dögunum. Bradford er leikmaður Grindvíkinga í Iceland Express deild karla og vildi leita til læknis þar sem annað hnéið á leikmanninum hafði verið að angra hann. Bradford fékk sprautu við meinum sínum og á leið sinni frá lækninum leið yfir hann með þeim afleiðingum að hann skar sig illa á hökunni. Óli Björn Björgvinsson formaður KKD Grindavíkur sagði Bradford vera ,,ægilegan nagla“ og vitaskuld yrði leikmaðurinn með á mánudag þegar Grindvíkingar leika sinn fyrsta leik í undanúrslitum.

,,Þegar Bradford kom út frá lækninum þá steinleið yfir hann og hann féll sem girðingarstaur í gangstéttina og fékk fyrir vikið skurð undir hökuna. Hann var síðan fluttur á sjúkrahús þar sem m.a. þurfti að sauma hann nokkur spor í hökuna,“ sagði Óli Björn en talið var að líkami Bradfords hefði fengið sjokk við sprautuna í hnéð með fyrrgreindum afleiðingum.

,,Nick lætur þetta ekki aftra sér því hann er einn af þeim sem myndi spila þó hann væri fótbrotinn! Hann er soddan ægilegur nagli þessi gæi,“ sagði Óli Björn og bætti við að líðan Bradfords í dag sé eftir atvikum góð og að hann muni fara í aðra læknisheimsókn á morgun til að ganga úr skugga um hvort ekki sé allt með felldu.

Bradford kom til Grindavíkur þegar nokkuð var liðið á tímabilið en hann hefur leikið 12 leiki með gulum og gert í þeim 17,1 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 5,9 fráköst, gefa 3,3 stoðsendingar og stela 2,6 boltum.

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -