Skagamenn unnu í kvöld sinn annan sigur í röð á heimavelli í 1. deild karla þegar þeir lögðu Hrunamenn 108-86. Með þessum sigri er ÍA komið úr fallsæti en baráttan um fallið er geysilega hörð.
Heimamenn tóku frumkvæðið strax í byrjun fyrsta leikhluta og leiddu 9-4 en mikið var skorað í þessum hluta. tölur eins og 14-12, 28-20 sáust. Leikhlutinn endaði svo 32-25 fyrir ÍA, varnarleikurinn var ekki mikill hjá liðunum.
Bæði lið hertu varnir sínar og ekki var mikið skorað í öðrum leikhluta. Baráttan var mikill og körfuboltinn var ekkert sérlega fallegur á köflum. Leikhlutinn endaði 15-15 og því leiddu Skagamenn 47-40 í hálfleik.
Skagamenn byrjuðu þriðja leikhlutan vel og ætluðu greinilega að keyra yfir gesti sína og þegar þrjár mínútur voru búnar var staðan orðin 54-42. En eins og oft áður í þessum leikhluta hjá Skagamönnum kom slæmur kafli og það nýttu baráttuglaðir Hrunamenn sér, komust inn í leikinn með góðum kafla og skoruðu 10-0 áhlaup og staðan var allt í einu 54-52. Þá gáfu heimamenn aftur í og skoruðu 13-5 og staðan 67-57. Liðin skiptust á körfum eftir þetta og þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 75-65.
Fjórði og síðasti leikhlutinn var eign Skagamanna og skoruðu þeir hverja körfuna á fætur annari og gerðu útum leikinn í byrjun seinasta leikhlutanns. Tölur eins og 81-69, 87-71 og 95-78 sáust á stigatöflunni. Leikurinn endaði svo 108-86, öruggur og góður sigur Skagamanna sem hafa nú 8 stig í deildinni eins og Þór Ak, Ármann og Höttur, þeir hafa betri innbyrðist á Hött og Ármann og eru því ekki í fallsæti en Skagamenn eru nýliðar í 1. deild.
Hjá heimamönnum átti Halldór Gunnar Jónsson stórleik en pilturinn skoraði 30 stig þar af 20 í seinni hálfleik og auki átti hann 4 stoðsendingar. Áskell Jónsson átti einnig góðan leik með 18 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Dagur Þórisson var með 13 stig og 11 fráköst og spilaði góða vörn, Hörður Nikulásson setti niður 13 stig og var með 2 stoðsendingar en piltur var í villuvandræðum megnið af leiknum.
Hjá Gestunum var Atli Gunnarsson langbestur með 26 stig og 13 fráköst. Hjálmur Hjálmsson skoraði 13 stig og tók 6 fráköst. Bragi Gunnarsson skoraði 13 stig og Mate Dalmay setti niður 12 stig og tók 9 fráköst.
Umfjöllun: Kolbrún Íris
Ljósmynd/ Úr safni: Halldór Gunnar Jónsson sjóðhitnaði á Skaganum í kvöld.