Það var orðið uppselt á leik Bosníu og Íslands löngu áður en hann hófst. Um sjö þúsund manns fylltu höllina í Tuzla og hrópuðu og görguðu allan tímann. Gríðarleg stemning á pöllunum svo þið getið rétt ímyndað ykkur hversu erfitt það hefur verið fyrir okkar menn að takast á við eitt af betri körfuboltaliðum Evrópu við þessar aðstæður. Bosnía er með nánast fastasæti í lokakeppnum stórmóta og því fyrirfram vitað að erfiður leikur var fyrir höndum.
Leikurinn hófst hálfbrösulega hjá báðum liðum en það voru Íslendingar sem settu niður fyrstu stigin á annari mínútu leiksins með sniðskoti frá Loga Gunnarssyni. Íslensku strákunum tóks að halda Bosníumönnum stigalausum fyrstu fjórar mínúturnar með hörku varnarleik. Ivanovic, þjálfara Bosníu var hætt að lítast á blikuna og henti stjörnu liðsins, Mirza Teletovic inn á völlinn, en hann hafði byrjað leikinn á bekknum.
Íslendingum tókst illa að nýta sér þurrkinn hjá Bosníu en á þessum fyrstu 4 mínútum hitti íslenska liðið aðeins úr 1 skoti af 5. Bosníumenn hins vegar glæddust nýju lífi við þátttöku Teletovic í leiknum og skoruðu 14 stig á móti engu frá Íslandi þar til Hörður Axel sökkti stökkskoti utan að velli. Haukur Helgi lenti snemma í villuvandræðum og var tekinn af velli með 3 villur eftir rúmar 5 mínútur.
Óförunum var hvergi nærri lokið en íslenska liðið skoraði aðeins 10 stig á móti 22 frá Bosníu í fyrsta leikhluta.
Ragnar Nathanaelsson kom inn á í lok fyrsta hluta og spilaði 4 mínútur í öðrum hluta. Nærvera hans í teignum hafði töluverð áhrif á leik beggja liða en Ragnar var með hæsta +/- gildi Íslendinga í leiknum með 2. Teletovic hélt áfram að negla niður körfum en hann endaði fyrri hálfleik með 16 stig. Íslendingar sigruðu hins vegar annan leikhluta 12-17. Staðan í hálfleik var 34-27 og Íslendingar enn inni í leiknum.
Teletovic og félagar hafa eitthvað fengið hárblásarann í klefanum í hálfleik því Bosníumenn skelltu í lás í vörn og hittu úr fyrstu sex skotum sínum utan að velli. Bosníumenn brenndu aðeins af 5 af 14 skotum sínum í fjórðungnum á meðan strákarnir okkar settu aðeins niður 6 stig og 4 þeirra komu af vítalínunni.
Staðan í upphafi fjórða og síðasta leikhlutans var 56-33 og útlitið orðið ansi dökkt fyrir íslenska liðið. Bosníumenn orðnir funheitir og lýðurinn á pöllunum í Tuzla gersamlega að fara á límingunum af gleði. Enginn hefði láð okkar mönnum að játa sig sigraða þegar þar var við sögu komið, spilandi á móti þessu firnasterka liðið sem var á öskrandi siglingu með Mirza Teletovic, leikmann Brooklyn Nets í broddi fylkingar.
Hins vegar virðist sem svo að orðið “uppgjöf” sé ekki til í orðabók okkar manna. Rétt eins og í leiknum gegn Bretlandi upphófst stórhríð af íslenskri fyrirmynd á vellinum þar sem leikmenn íslenska liðsins suðuðu um allan völlinn í grjótharðri vörn. Ísland þvingaði 2 tapaða bolta, héldu Bosníu í 1/8 í skotum sínum utan að velli og sóttu 6 villur á leikmenn heimamanna með stöðugum árásum á körfuna á fyrstu 5 mínútum leiksins.
Logi Gunnarsson átti stórkostlegan sprett og setti niður hvern þristinn á fætur öðrum og eftir 5 mínútur höfðu Íslendingar náð að minnka muninn niður í 7 stig, 59-52.
Á þessum tímapunkti vóg reynsla Bosníumanna ansi þungt. Teletovic tók málin í sínar hendur, hægði á leiknum með því að stilla upp sækja svo að körfunni og lét svo boltann ganga þar til einhver endaði með opið skot sem rataði ofan í. Íslenska liðið lét síður en svo deigan síga og héldu áfram að sækja að körfunni. Þegar um 2 mínútur voru eftir af leiknum brenndi Logi af þriggja stiga skoti sem hefði minnkað muninn niður í 6 stig en Bosníumenn svöruðu með þrist og munurinn orðinn 12 stig með 1:30 eftir af leiknum.
Bosníumenn sluppu með skrekkinn og höfðu af 10 stiga sigur, 72-62 gegn litlu körfuboltaþjóðinni með stóra hjartað langt norður í ballarhafi.
Íslenska liðið getur gengið hnarreist frá þessum leik. Leikurinn var vel skipulagður af Pedersen, þjálfara. Byrjaði með lágvaxið en snöggt lið og fór svo að skipta mjög ört mönnum inn á til að halda þolinu uppi. Skipulag Pedersen var einnig vel framkvæmt af liðinu og varnarleikurinn til fyrirmyndar.
Logi Gunnarsson leiddi íslenska liðið með 18 stig, 4 fráköst og 2 varin skot. Hörður Axel átti einnig mjög góðan leik og endaði með 14 stig og hitti vel með 6/8 í skotum utan að velli og þar af 2/3 í þristum. Martin Hermannsson bætti við 9 stigum en var ekki að finna sig í skotunum. Sömu sögu er að segja af Elvari Friðrikssyni en hann skoraði 6 stig fyrir íslenska liðið. Ragnar Nathanaelsson átti fína innkomu þó hann hafi aðeins skorað 3 stig en vera hans inni á vellinum breytti sóknarleik Bosníumanna svo um munaði. Ólafur Ólafsson fékk nokkrar mínútur sem hann nýtti afburðavel í vörn þótt hann hafi ekki skorað neitt.
Pavel Ermolinskij lék ekkert með í þessum leik vegna eymsla í hásin og var því mikilvægara að hvíla hann fyrir leikinn gegn Bretum. Haukur Helgi meiddist einnig eitthvað á fæti í þriðja hluta og spilaði ekkert meira með í leiknum.
Hjá Bosníu var Mirza Teletovic alger yfirburðamaður með 29 stig á 27 mínútum. Hann bætti einnig við 12 fráköstum, 2 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og 1 vörðu skoti.
Vonir um sigur í þessum leik voru ekki miklar. Íslenska liðið náði þó einu fram sem er ekki síður mikilvægt – að senda Bosníumönnum þau skilaboð að hér væri lið sem ætlaði ekki að láta vaða yfir sig á skítugum skónum og það myndi bíta hressilega frá sér þegar þeir koma í Höllina.
Framundan er leikur gegn Bretum í koparboxinu þeirra í London á miðvikudaginn. Sá leikur er alger skyldusigur fyrir Íslendinga ætli þeir að eygja einhverja von um framhald á þessu ævintýri.
Mynd: Logi Gunnarsson leiddi íslenska liðið með 18 stig. (JBÓ)