9:33
{mosimage}
Í dag[gær] undirrituðu forsvarsmenn ÍR og Bojan Desnica tveggja ára samning sem felur það í sér að Bojan tekur að sér að vera yfirþjálfari yngri flokka félagsins. Hann mun m.a. vinna að samræmingu þjálfunar yngri flokka, annast séræfingar fyrir efnilega leikmenn og halda körfuboltabúðir. Þetta er í fyrsta skipti sem unglingaráð ÍR hefur yfir að ráða starfsmanni í fullu starfi og ljóst að um mikla breytingu verður að ræða á allri starfsemi deildarinnar. Bojan hefur áður sinnt þjálfun barna og unglinga í heimalandi sínu Serbíu og auk þess um fjögurra ára skeið hjá KR og í fyrra hjá Breiðabliki. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá KR, meistaraflokk karla hjá Stjörnunni og var aðstoðarþjálfari Herberts Arnarsonar með meistaraflokk KR á árum áður. Hann hefur áunnið sér mikla virðingu hér á landi með störfum sínum og var t.d. valinn til að þjálfa U-20 ára landslið Íslands árið 2005.
Körfuknattleiksdeild ÍR stefnir markvisst að stórfelldri fjölgun iðkenda í öllum hverfum Breiðholts á komandi misserum. Síðustu tvö ár hefur verið unnið gott starf í yngstu flokkum og er nú stefnt að því að gera enn betur. Bojan mun einbeita sér sjálfur að þjálfun yngstu flokka sem sýnir þá áherslu sem ÍR mun leggja á að veita nýjum iðkendum bestu þjálfun sem völ er á.
Fréttatilkynning frá ÍR
Mynd: www.kr.is/karfa