spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBöðvar: Finnst eðlilegast að liðin sem nú eru meistarar haldi sínum titlum

Böðvar: Finnst eðlilegast að liðin sem nú eru meistarar haldi sínum titlum

Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er formaður KR, Böðvar Guðjónsson. Meistarar síðustu sex ára í KR höfðu byrjað tímabilið afleitlega, en á síðustu vikum tekið sig á og sýnt að þeir myndu, enn og aftur, svo sannarlega gera atlögu að titlinum.

Hvernig er að vera í leyfi útaf þessum aðstæðum?

“Auðvitað er þetta skrýtið ástand en ekkert við þessu að gera. KKÍ hefur verið í góðu samskiptum við yfirvöld og stýrt þessu vel og á KKÍ hrós skilið fyrir”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Fyrst og fremst almenn skynsemi og sýna ábyrgð í þeim aðstæðum sem nú þegar liggja fyrir. Það er mikil óvissa framundan og má búast við að við verðum í þessum aðstæðum vel fram á sumar og kannski lengur”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Flauta mótið af og hefja nýtt mót næsta haust. Ekkert lið fellur og án úrslitakeppni á ekki að krýna meistara. Finnst eðlilegast að liðin sem nú eru meistarar haldi sínum titlum. Það er galið að ætla að halda áfram með mótið í sumar nema þá að liðin samþykki að leika án erlendra leikmanna en ég tel ólíklegt að eitthvað lið geti haldið sínum erlendum leikmönnum í óvissu fram á sumar þar sem engar tekjur eru að koma inn. Spurning þá hvort liðin vilji klára með íslenskum leikmönnum og það verði þá leikið með áhorfendur viðstadda”

Að lokum, með hverju mælir Böðvar í samkomubanninu?

“Verum góð hvert við annað og förum eftir því sem yfirvöld boða hverju sinni”

Fréttir
- Auglýsing -