spot_img
HomeFréttirBlikar hefja tímabilið af öryggi, Gnúpverjar ekki sannfærandi

Blikar hefja tímabilið af öryggi, Gnúpverjar ekki sannfærandi

Breiðablik og Gnúpverjar hófu tímabilið í kvöld með leik í Smáranum. Breiðablik var spáð efsta sæti í 1. deild karla á meðan að Gnúpverjar voru taldir vera botnliðið í ár.

Gestirnir fengu ekki hlýjar móttökur í Smáranum þrátt fyrir að nær helmingur Gnúpverja eru uppaldir í Smáranum hjá Breiðablik. Heimamenn unnu leikinn sannfærandi 95-63.

Þáttaskil

Strax í fyrsta leikhluta tóku Blikarnir 10 stiga forystu og héldu áfram að rúlla allan leikinn. Blikar höfðu fleiri leikmenn sem skiluðu betri mínútum en andstæðingar þeirra í Gnúpverjum. Niðurstaðan var ljós áður en leiknum var lokið.

Tölfræðin lýgur ekki

Liðin skildu jöfn í flestum tölfræðiþáttum að undanskildri skotnýtingunni. Breiðablik hitti úr rétt tæpum helmingi allra skota sinna (30/61 í skotum utan af velli, 49%) og nýttu ágætlega þann aragrúa af vítum sem að þeir fengu (26/34 í vítum) á meðan að gestirnir í Gnúpverjum hittu úr færri skotum þrátt fyrir að taka fleiri (21/74 í skotum utan af velli, 28%). Mestur munur var í þristum, en Gnúpverjum skutu 16% fyrir utan þriggja stiga línuna (4 af 25) á meðan að skutu 45% (9 af 20).

Hetjan

Margir í liði Breiðabliks áttu góðan leik, en fremstur meðal jafningja var klárlega Ragnar Jósef Ragnarsson. Ragnar kom af bekknum í miðjum fyrsta leikhluta og byrjaði á að setja 7 stig í röð. Hann skoraði helming allra stiga í fyrsta leikhluta og skoraði 20 stig í fyrri hálfleik. Hann endaði leikinn með 27 stig og 4 fráköst. Hann var með 69% skotnýtingu utan af velli (9/13 skot) og hitti úr 5 af 8 þristum (62% þriggja stiga nýting).

Kjarninn

Gnúpverjar gátu ekki staðið í Blikunum og hefja 1. deildina með tapi. Þeir verða að hitta á betri leik hvað varðar skotnýtingu ef að þeir ætla að sigra einhverja leiki í deildinni á þessu ári. Þeir eiga næsta leik við Vestra á Ísafirði á sjálfum föstudeginum þrettánda, þeir hafa vonandi heppnina með sér þá.

Breiðablik líta vel út, hafa breiðan hóp og tóku fyrsta leik tímabilsins mjög örugglega. Það er þó ekki gefið að þeir vinni alla leiki svona vel og þeir verða að halda í grimmdina fyrir næstu leiki tímabilsins. Blikar eiga næst heimaleik við Vestra 9. október og ætla sér að örugglega sigur þar líka. 

Fréttir
- Auglýsing -