Njarðvíkingar hafa orðið fyrir blóðtöku en ljóst er að Björn Kristjánsson mun ekki leika með Njarðvík á næsta tímabili eftir ársveru hjá félaginu. Hann hefur samið við KR aftur fyrir næsta tímabil en þetta kemur fram á heimasíðu KR í dag.
Björn kom til Njarðvíkur fyrir síðasta tímabil frá KR og var í gríðarlega stóru hlutverki hjá þeim grænklæddu. Hann var með 13,1 stig, 4,7 fráköst og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur en Njarðvík olli nokkrum vonbrigðum í vetur og endaði í níunda sæti Dominos deildar karla.
Björn var gestur í Podcasti Karfan.is rétt eftir að tímabilinu lauk þar sem hann gerði upp tímabilið og sagði frá framtíðaráhorfum sínum. Þá sagðist hann óviss um framtíð sína en hann segir að næsti áfangastaður muni koma í ljóst á næstu misserum.
Nú er ljóst að hann verður aftur í svarthvítabúningnum á næsta tímabili. Þar hittir hann fyrir æskuvin sinn Kristófer Acox en samkvæmt heimildum Karfan.is er það draumur þeirra félaga að leika saman í meistaraflokki.
Einnig sömdu Brynjar Þór Björnsson fyrirliði liðsins og Darri Hilmarsson við KR um að leika þar áfram.