spot_img
HomeFréttirBjarni um úrslitaeinvígið gegn Val "Hef mikla trú á leikmönnum mínum"

Bjarni um úrslitaeinvígið gegn Val “Hef mikla trú á leikmönnum mínum”

Haukar lögðu Keflavík í gærkvöldi í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Dominos deildar kvenna, 80-50. Með sigrinum tryggðu þær sér farseðil í úrslitaeinvígið, þar sem þær munu mæta deildarmeisturum Vals.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Bjarna Magnússon, þjálfara Hauka, um undanúrslitin og úrslitaseríuna sem er framundan.

Þrjú núll á móti Keflavík í undanúrslitunum, þú hlýtur að vera sáttur? Hvað er að skapa þetta fyrir ykkur?

“Já, ég er mjög sáttur með frammistöðuna, fannst heilt yfir við vera sterkari aðilin í þessu einvígi og því verðskuldað á leið í úrslit. Varnarleikurinn okkar og góð liðsheild tel ég vera grunninn af þessum sigrum. Stelpurnar komu mjög einbeittar í þetta verkefni, tilbúnar að leggja sig 100% í þetta og uppskáru eftir því”

Flott sigling sem hefur verið á liðinu síðustu mánuði, finnst þér vera stígandi í liðinu?

“Já, sammála því, það hefur verið góður stígandi í þessu og það hefur verið markmiðið hjá okkur í allan vetur. Að mæta á hverju æfingu og í hvern leik einbeittar í að gera betur í dag en í gær. Þannig fannst mér við t.d. vera gera betur í hverjum leik á móti Keflavík, bæði sóknarlega og varnarlega sem vonandi veit á gott. En markmiðið breytist ekki hjá okkur með þetta, við ætlum að halda áfram að leggja okkur fram og bæta okkur á hverjum degi”

Úrslitaeinvígi gegn ógnarsterku liði Vals, sem líkt og þið, sópuðu sínum andstæðing í undanúrslitunum. Hvað þurfið þið að gera til þess að vinna þær? 

“Já, það liggur fyrir, að við spilum á móti Val um titilinn. Það verður skemmtilegt og krefjandi verkefni fyrir okkur. Þurfum klárlega að spila mjög vel til að ná í 3 sigra en ég hef mikla trú á leikmönnum mínum og tel að við séum komin á þann stað að geta klárað þetta. Vörn vinnur titla þannig að vörnin okkar þarf að vera mjög góð til að við náum 3 sigrum og það er markmiðið”

Hvernig hefur ykkur gengið gegn þeim í vetur, er eitthvað hægt að lesa í þá leiki?

“Heyrðu, það er ekki flókin tölfræði! Við unnum ekki neinn leik á móti Val í vetur. En mér fannst við vera að nálgast þær í hverjum leiknum sem við spiluðum á móti þeim og eins og við töluðum um áðan þá hefur verðið góður stígandi í liðinu hjá okkur og við sjáum og trúum að við séum að toppa á réttum tíma. Þannig að fyrir mér skipta þessir leikir sem við spiluðum á móti þeim í vetur ekki neinu máli, þetta er nýtt mót með nýjum markmiðum. Markmiðin voru einföld í byrjun úrslitakeppninnar, ná í 6 sigra, 3 komnir í hús þannig að nú þurfum við að sækja 3 sigra í viðbót á móti Val til að geta lyft bikarnum í júní. Veit að stelpurnar eru tilbúnar að leggja mikið á sig til að ná þessu markmiði”

Fréttir
- Auglýsing -