Þriðji leikur undanúrslita Dominos deildar kvenna fór fram í kvöld þar sem Haukar tóku á móti Keflavík. Staðan fyrir leikinn var 2-0 fyrir Hauka og því þurfti Keflavík lífsnauðsynlega á sigri að halda í kvöld til að halda sér á lífi í deildinni.

Gangur leiksins:

Það blés ekki byrlega fyrir Keflvíkinga því eftir að liðið leiddi leiinn 4-3 fór allt á annan endann. Haukar settu næstu 23 stig gegn fjórum og leiddu eftir fyrsta leikhluta 23-8. Haukar bættu enn í stöðuna og fóru inní hálfleikinn með 41-20 forystu.

Flestir hefðu búist við því að Keflavík kæmi brjálað til leik í seinni hálfleik til að berjast fyrir lífi sínu en til að gera langa sögu stutta þá gerðist það ekki. Keflavík áttu ekki orku til að elda Haukana lengur og bætti Keflavík enn í forystuna. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 70-35. Þar með má segja að leik hafi verið lokið og settu bæði lið lítið í fjórða leikhluta. Lokastaðan 80-50, gríðarlega öruggur sigur Hauka staðreynd.

Atkvæðamestar:

Sara Rún Hinriksdóttir átti frábæran leik fyrir Hauka gegn uppeldisfélagi sínu en hún endaði með 22 stig, 6 fráköst og 4 stolna bolta. Alyesha Lovett átti einnig góðan leik og endaði með 13 stig, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Hjá Keflavík var Daniela Morillo með 17 stig og 9 fráköst. Emelía Ósk Gunnarsdóttir var einnig öflug með 7 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.

Hvað næst?

Keflavík er komið í sumarfrí. Frammistaða liðsins í einvíginu var nokkur vonbrigði en liðið leiddi deildarkeppnina stærstan hluta tímabilsins og voru væntingarnar eftir því. Hauka liðið kom hinsvegar bara inní úrslitakeppnina á meiri ferð á meðan Keflavík kom hikandi inn. Keflavík þarf samt ekki að örvænta, liðið gaf ungum leikmönum ábyrgð sem mun skila sér innan fárra ára.

Haukar eru komnir í úrsltaeinvígið í þriðja sinn á sex árum. Þar mætir liðið Valskonum sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Óhætt er að segja að Haukar hafi sýnt á sér tennurnar með frammistöðu síðustu daga og ætti engin að afskrifa þær. Þessi lið mættust í úrslitaeinvíginu fyrir þremur árum í mjög eftirminnilegri seríu þar sem Haukar unnu í ævintýralegum oddaleik.

Úrslitaeinvígið hefst fimmtudagskvöldið næstkomandi í Origo höllinni kl 20:15.

Tölfræði leiksins