spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaBjarni um framhaldið fyrir Hauka í riðlakeppni EuroCup "Við munum sannarlega undirbúa...

Bjarni um framhaldið fyrir Hauka í riðlakeppni EuroCup “Við munum sannarlega undirbúa okkur eins vel og við getum”

Haukar lögðu portúgalska liðið Uniao Sportiva samanlagt fyrir helgina í undankeppni EuroCup. Fyrri leikinn unnu þær heima með 5 stigum og dugði þeim því að tapa þeim seinni leiknum með 2 stigum. Samanlagt fóru þær því áfram með 3 stigum, 157-160.

Hérna er meira um leikinn

Haukar eru því komnir áfram í riðlakeppni keppninnar, en fyrsti leikur þeirra í henni er 14. október.

Þetta verða mótherjar Hauka í riðlakeppni EuroCup

Karfan heyrði í þjálfara liðsins Bjarna Magnússyni og spurði hann út í leikinn og framhaldið.

Hörku leikur á Azoreyjum, var ekkert farið að fara um þjalfarateymið?

“Þetta var hörkuleikur, ekki óskabyrjun en stelpurnar misstu aldrei trú á verkefninu og unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Það var hátt spennustig í þessum leik og sérstaklega á lokamínútunum, en mér fannst bæði leikmenn og við þjálfarar höndla það vel þegar allt var undir í lokin. Lentum 7 stigum undir þegar innan við 2 mín voru eftir af leiknum þegar við tökum leíkhlé. Náðum svo að klára þetta með 7-2 kafla sem nægði til að klára þetta”

Þið komnar í riðlakeppnina, hvaða þýðingu hefur þetta fyrir félagið?

“Það að vera komin í riðlakeppni er frábært og verður ævintýri fyrir leikmenn, þjálfarateymi og alla þá sem starfa í kringum liðið. Það að klúbburinn sé að gefa leikmönnum Hauka tækifæri á að taka þátt í þessari keppni er náttúrulega bara frábært og sýnir þann mikla metnað sem stjórn klúbbsins og allt það frábæra fólk sem starfar í sjálfboðavinnu fyrir deildina, hefur! En eins og þú segir þá erum við komin í riðlakeppni EuroCup sem er frábært fyrir okkur og íslenskan kvenna körfubolta. Íslenskt kvennalið hefur ekki verið á þessum stað í einhver 15 ár þannig að það að liðið sé nú komið í riðlakeppni er og verður ævintýri og við ætlum öll að njóta”

Hvernig metur þú möguleika ykkar í þessum L riðil?

“Við vorum að koma heim í nótt þannig að við þjálfararnir erum ekki mikið búnir að skoða andstæðingana. En við erum að fara að mæta mjög sterkum liðum úr atvinnumannadeildum þannig að við erum klárlega “litla” liðið í þessum riðli. Svo fyrirfram eru möguleikar okkar ekki miklir. En sjáum til, við munum sannarlega undirbúa okkur eins vel og við getum og ég veit að stelpurnar eru stoltar og spenntar að fá að taka þátt í þessu ævintýri og tilbúnar að leggja mikið á sig þannig að þær munu sannarlega gefa sig 100% í þessa leiki svo sjáum við til hverju það skilar. Fyrsti leikur í Ólafssal 14.okt, vona sannarlega að sem flestir mæti til að styðja liðið”

Má gera ráð fyrir að Haukar styrki sig eitthvað frekar fyrir baráttuna?

“Nei ég á ekki von á því. Við þjálfararnir áttum fundi með stjórninni um þetta þegar það var ákveðið að taka þátt í EuroCup. Okkur stóð til boða að bæta erlendum leikmanni við liðið fyrir þessa keppni. En við ákváðum að gera það ekki, heldur að máta okkur við þessi lið með þann hóp sem við ætlum að nota í komandi Íslandsmóti. Markmið klúbbsins er að taka þátt í þessari keppni árlega, þannig að sú reynsla sem okkar leikmenn fá með því að taka þátt og upplifa og þá sérstaklega okkar ungu efnilegu leikmenn, verður ómetanleg og hjálpar vonandi öllum í að vilja gera enn betur, bæta okkur sem leikmenn og gera þannig Haukaliðið enn betra”

Fréttir
- Auglýsing -