spot_img
HomeFréttirBjarni Magnússon þjálfar Þór Þ.

Bjarni Magnússon þjálfar Þór Þ.

19:01

{mosimage}

Bjarni og Björn Hjörleifsson formaður kknd. Þórs á Litlu kaffistofunni í dag 

Fyrstu deildarlið Þórs í Þorlákshöfn gekk í dag fram samning við Bjarna Magnússon um að þjálfa liðið næsta árið. Bjarni sem ólst upp á Suðurlandinu hefur komið víða við á ferlinum sem leikmaður, hann hóf ferilinn í Úrvalsdeild 1990 með Val og lék svo með ÍA, Haukum og Grindavík. Hann fór svo seinna til ÍS þar sem hann var m.a. þjálfari.

Karfan.is heyrði í Bjarna í dag sem var nýkominn af Litlu kaffistofunni þar sem skrifað var undir samninginn og spurði hvers vegna hann hafi farið út í þjálfun eftir að hafa fylgst með boltanum í fjarlægð um tíma.

,,Þetta hefur blundað í mér að taka að mér þjálfun aftur í meistaraflokki og þá að einhverri meiri alvöru en var hjá ÍS, svo þegar Þórsarar höfðu samband við mig  þá varð ég að skoða það. Þetta hentar mjög vel fyrir mig að taka að mér þjálfun í Höfninni á þessum tímapunkti þar sem ég starfa meira og minna á Selfossi þannig að þetta smellur vel við það. Einnig er mikil uppbygging í gangi á íþróttamannvirkjum í Þorlákshöfn þannig að öll aðstaða er að verða alveg fyrsta flokks, efnilegir strákar að verða að mönnum þannig að þetta er bara spennandi dæmi sem ég hlakka til að takast á við."

,,Annað sem gerir þetta ekki síður skemmtilegt er að í vetur verða 4 lið í 1.deildinni af Suðurlandi, Þór, Hrunamenn, gamla stórveldið Laugdælir og Hamar, þannig að þetta er bara eins og að spóla 20 ár+ aftur í tímann þegar ég var að spila sjálfur í HSK mótinu. Þannig að það má búast við nokkrum öflugum skjálftum í vetur á Suðurlandinu…."

Hvað með leikmannamál?
,,Ég hef svo sem ekki hitt leikmennina ennþá og þess vegna hafa ekki endaleg markmið verið sett, en veit þó að menn hafa ekki áhuga á að falla um deild og það er ekki heldur nein pressa á að fara upp um deild ennþá enda eru flestir local leikmenn ungir að árum.  En það er ekkert launungamál að við þurfum að bæta við okkur mannskap og munum við fara í þá vinnu nú á næstu dögum, því 1.deildin var mjög sterk á síðasta tímabili þannig að ef við ætlum að vera með samkeppnishæft lið þá verðum við að vera með sterkan æfingahóp."

[email protected]

Mynd: Eyrún Hafþórsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -