11:21
{mosimage}
(Navarro)
Evrópskur körfubolti er í mikilli sókn og hefur þetta ár verið sérstaklega skemmtilegt. Mikið er um fyrrum NBA-leikmenn í Evrópu, tilboð stærstu liða álfunnar eru farin að trekkja að bandarískar stjörnur. Til dæmis er Kareem Rush að leika í Litháen, en hann þótti ákaflega efnilegur á sínum tíma, sérstaklega þegar hann gekk til liðs við Charlotte Bobcats. Sem dæmi um aðra fyrrum NBA leikmenn, frá Bandaríkjunum, í Evrópu má nefna Joe Forte, Lonnie Baxter, Will Bynum og svona mætti lengi telja. Nokkrir Evrópubúar sem hafa leikið Vestanhafs snéru aftur heim og leika nú stærri rullu en þeir gerðu í NBA. Sem dæmi um slíka menn má nefna Zoran Planninic, sem hefur átt frábært ár með TAU, og Raúl López sem stýrir leik Real Madrid eins og herforingi.
En einnig eru leikmenn í Evrópu sem hafa verið valdir af NBA liðum, en leika ennþá í Evrópu. Margir þessara leikmanna eru meðal þeirra bestu í álfunni. Mun ég fjalla um þessa leikmenn og veita innsýn inn í leik þeirra.
Juan Carlos Navarro
194 cm, fæddur 1980. Leikmaður Barcelona. Lið í NBA: Washington Wizards.
Navarro er einn af mínum uppáhalds leikmönnum. Hann var helsta stórstjarna spænska landsliðsins í yngri flokkum. Með honum í árgangi var önnur stjarna, Pau Gasol. Voru þeir burðarásar liðsins, en í sama árgangi eru Felipe Reyes, Raúl López og svo spilaði Jose Calderón einnig með þeim, en hann er fæddur 1981. Þetta var undirstaða liðsins sem tók heimsmeistaratitilinn í fyrra.
Navarro er ávalt meðal stigahæstu leikmanna Euroleague. Frábær sóknarmaður. Nýtir sér alls kyns gabbhreyfingar til þess að koma varnarmanninum úr jafnvægi. Er einnig frábær að koma sér í færi án bolta. Gríðarlega góð skytta og hefur auga fyrir góðu samspili. Einfaldlega sóknarmaskína.
Varnarleikurinn hans hefur ávalt verið spurningamerki. Þó virðist Dusko Ivanovic, þjálfari Barcelona, hafa fengið Navarro til þess að leggja meira á sig á þeim endanum. Í vetur stoppaði hann meðal annars Louis Bullock, bandarískan leikmann Real Madrid, og Rudy Fernandez, besta unga leikmann Evrópu. Navarro er því stöðugt að bæta leik sinn.
Ólíkt flestum leikmönnum Evrópu hefur Navarro verið hjá sama liðinu í fjölda ára. Flestir leikmenn staldra stutt við hjá stórliðum álfunnar, en Navarro hefur leikið með Barcelona frá árinu 1996. Hann er uppáhald stuðningsmannana og sannur leiðtogi.
Washington Wizards eiga réttinn á Navarro, ákveði hann að flytja sig yfir til Bandaríkjanna. Hann gæti eflaust hjálpað Wizards á margan hátt. Ég á þó erfitt með að sjá hann fyrir mér sem stórstjörnu í deildinni, sökum skort á hæð og styrk miðað við helstu skotbakverði NBA. Hann gæti þó orðið svipaður leikmaður og Steve Kerr (sem var t.d. frábær í Háskóla). Þó er Navarro fjölhæfari sóknarmaður en Kerr var.
{mosimage}
Luis Scola
206 cm, fæddur 1980. Leikmaður TAU Vitoria. Lið í NBA: San Antonio Spurs.
Scola er að mörgum talinn besti leikmaður heims, utan NBA. Ég er sammála því, séu Greg Oden og Kevin Durant, bestu leikmenn háskólaboltans, undanskyldir.
Scola er helsta vopn TAU, sem er að mínu mati besta lið Evrópu í dag. Auk þess er Scola leikmaður með hinu stórskemmtilega argentíska landsliði sem hefur gjarnan komið á óvart á stórmótum (hvort sem það er með því að spila vel eða illa).
Scola er baráttujaxl með mjúkan úlnlið. Hann er allt sem maður vill fá í stórum manni. Fótavinnan hans er fáránlega góð. Hann er mjög góður í að gefa á réttu mennina þegar hann er tvöfaldaður. Hann er góð skytta í kringum teiginn. Samvinna hans við leikstjórnanda TAU, Pablo Prigioni, er frábær. Sérstaklega í fyrra þegar þeir félagar voru nánast óstöðvandi í ,,Pikk og Ról”.
San Antonio Spurs eiga réttinn á honum. Þó er óvíst hvort þeir hafi áhuga á að fá hann. Fyrir hjá Spurs er annar Argentínumaður, Fabricio Orberto. Spilar hann sömu stöðu og Scola og eru því takmörkuð not fyrir hann hjá liðinu. Einnig yrði það mjög dýrt fyrir Spurs að kaupa samning Scola við TAU upp og því er hann í einskonar pattstöðu. En engu að síður virðist hann afar ánægður hjá TAU enda í frábæru liði.
Scola gæti vel orðið góður leikmaður í NBA
{mosimage}
Axel Hervelle
206 cm, fæddur 1983. Leikmaður Real Madrid. Lið í NBA: Denver Nuggets.
Hinn ungi, belgíski Hervelle leikur stóra rullu í einu besta liði Spánar, Real Madrid. Hervelle er ólíkur kraftframherjum sem koma frá Evrópu. Hann er nefnilega miklu meira gefinn fyrir pústra og baráttu. Hervelle er fyrst og fremst frábær liðsmaður. Hann er góður varnarmaður og les leikinn vel. Góður í að fiska ruðning og taka fráköst.
Hervelle er ekki mikill sóknarmaður en getur þó skotið. Hann hefur til að mynda verið að setja niður þrista en þarf þó að bæta skot sitt enn betur.
Það er mjög erfitt að koma orðum yfir Hervelle. Sjón er sögu ríkari. Hann er skemmtilegur leikmaður sem er alltaf að.
Denver Nuggets eiga réttinn á honum. Hann gæti vel hjálpað þeim. Hann er nefnilega þannig leikmaður, hann skilur hlutverk sitt og reynir ekki meira en hann getur. Hann yrði flottur með Carmelo Anthony og Allen Iverson.
{mosimage}
Fran Vasquez
210 cm, fæddur 1983. Leikmaður Barcelona. Lið í NBA: Orlando Magic.
Þegar Orlando Magic völdu Vasquez fyrir tveimur árum göptu margir. Valið kom nokkuð á óvart, ekki síst fyrir þær sakir að óvíst var hvort að Vasquez hefði áhuga á því að spila í NBA. Yfirlýsingar hans í kjölfar nýliðavalsins voru ekki til þess að afla honum vinsælda í Orlando og enn er óvíst hvenær og jafnvel hvort hann fari í NBA.
Vasquez er sérstakur leikmaður. Oft fer ekki mikið fyrir honum. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af leik hans. Hann er fyrst og fremst harðjaxl í vörninni. Hann hefur þann ljóta sið að hoppa upp og reyna að verja öll skot. En þegar hann virkilega einbeitir sér að því að vera fyrir framan mennina sína og stökkva ekki við fyrstu gabbhreyfingu, þá er hann öflugur.
Vasquez er að mínu mati frekar ofmetinn leikmaður. Mario Kasun, annar miðherji Barcelona, hefur virkilega sýnt að hann er miklu betri en Vasquez. Kasun þessi lék einmitt með Orlando Magic en tókst ekki að festa sig í sessi þar. Því þykir mér afar ólíklegt að Vasquez muni láta að sér kveða í NBA.
Leikmenn sem ekki hafa verið valdir í NBA
{mosimage}
Felipe Reyes
206 cm, fæddur 1980. Leikmaður Real Madrid.
Felipe Reyes er helsta vopn Real Madrid. Hann er hluti af þessum fræga ’80 árgangi. Hann hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og er nú að orðinn einn af bestu leikmönnum spænsku deildarinnar.
Reyes er ekki með bestu boltatæknina eða fallegasta skotið. Hann er aftur á móti mjög harður af sér og fljótur miðað við hæð og styrk. Sprengikrafturinn er hans helsta vopn. Undanfarin ár hefur hann verið eilítið einhæfur leikmaður, mikið keyrt að körfunni og þá helst til hægri. En hægt og rólega hefur hann verið að bæta skot sitt og er nú orðinn þokkalegasta skytta í kringum vítalínuna. Þurfa varnarmenn því að sækja meira út að Reyes og getur hann þá notað hraðann og keyrt að körfunni. Vörnin er líka í fínu lagi hjá Reyes. Hann tekur mikið pláss og frákastar vel. Hann lætur menn ekki komast upp með nein flottheit í teignum og er fastur fyrir. Helsti veikleiki hans er þó skapið. Til að mynda var hann dæmdur í leikbann fyrir að skalla mótherja, í leik sem Real Madrid var með mikla forystu og ekkert var undir. En skapið hans er samt sem áður það sem gerir hann að því sem hann er.
{mosimage}
Rudy Fernandez
196 cm, fæddur 1985. Leikmaður Joventut Badalona.
Ef lýsa ætti Rudy Fernandez í einu orði yrði lýsingarorðið: Kvikur. Rudy er stórskemmtilegur spilari í hinu unga og efnilega Joventut liði. Hann sker sig úr, fyrir þær sakir að hann er frábær íþróttamaður en hefur samt sem áður hinn rómaða evrópska grunn. Þann grunn sem gerir evrópska leikmenn svo vinsæla hjá stjórnendum NBA-liðanna. Rudy var valinn besti ungi leikmaður Evrópu. Ástæðan er einföld. Hann er lykilmaður í sterku liði, þrátt fyrir gríðarlega ungan aldur. Rudy hefur skorað tæp 17 stig í leik í Euroleague í ár, sem er frábær árangur. Hann er rísandi stjarna sem gæti vel plummað sig í NBA. Hans helsti veikleiki er þó hversu viltur hann getur verið. Hann á það til að selja sig í vörninni. En þetta er eitthvað sem er ekki óalgengt á meðal ungra leikmanna. Hann þarf líka örlítið meiri reynslu í vörninni en það ætti allt að koma á næstu árum.
{mosimage}
Ricky Rubio
192 cm, fæddur 1990. Leikmaður Joventut Badalona.
Efnilegasti leikmaður í heiminum í dag segja margir. Ricky Rubio hefur endurskilgreint orðið yfirburðir í leikjum með yngri landsliðum Spánar. Frægt er orðið hvernig hann tryggði liði sínu sigur í Evrópukeppninni með einhverri svakalegustu þreföldu tvennu sem sést hefur í landsleikjum.
Þessi kornungi drengur hefur einnig fengið mikið af tækifærum á meðal þeirra bestu í Evrópu. Hann hefur fengið að spila rúmar 18 mínútur í leik í Euroleague.
Rubio er rosalega öflugur leikstjórnandi. Joventut liðið spilar jafnan mun betur þegar hann er að stjórna liðinu frekar en t.d. Elmer Bennet, annar bandaríski leikmaður liðsins. Ricky er rólegur og fer ekki fram úr sér. Hann er frábær varnarmaður og mikil liðsspilari. Auðvitað er erfitt að greina leik hans á meðal þeirra bestu, þegar hann er svona ungur. En ef hann heldur svona áfram þá gæti hann orðið einn besti leikmaður heimsins. Möguleikarnir eru endalausir fyrir þennan strák sem heldur áfram að koma mönnum á óvart. Hann hefur skilað 3,6 stigum, 2,4 fráköstum, 2,8 stoðsendingum og hvorki meira né minna en 3,2 stolnum boltum í leik.
Í næsta pistli mun ég fjalla um fleiri leikmenn Evrópu og aðeins rýna í leik Real Madrid, sem er annað af liðinum sem leikur til úrslita í ULEB-Cup.
– Kjartan Atli Kjartansson