15:38
{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson)
Það er erfitt að finna stund þessa dagana til að sitja fyrir framan tölvuna og pikka inn einhverja pistla eins og veðrið hefur leikið við landann undanfarið. Allavega hefur veðrið verið nánast óaðfinnanlegt í Grafarvogi. Sól og sumar eins og það gerist best og maður búinn að vera í sumarfríi. Sé fyrir mér súkkulaðistrákana í leikmannaflórunni hér heima og ákveðna dómara spara dágóðar upphæðir í sumar sem annars hefðu farið í ljósakort og brúnkukrem. Er gríðarlega ánægður með tímasetninguna á fríinu hjá mér og hefur maður notað tímann vel með fjölskyldunni með allskyns útiveru. Ekki ofsögum sagt að það hafi verið kominn tími á það en þeir þekkja það vel sem eru djúpt sokknir í körfuna að alltof sjaldan gefst alvöru tími með fjölskyldunni.
Eins og alltaf fara vormánuðir hjá liðum hérna heima í að setja saman lið og mörg reyna að styrkja hópinn. Mikil læti hafa verið á leikmannamarkaðinum fram að þessu og man ég sjálfur ekki eftir öðru eins. Það hefur klárlega ekki verið gúrka hjá Víkurfréttum því hver stórfréttin á eftir annarri hefur poppað upp á Suðurnesjunum. Margir hákarlar á því svæði hafa ákveðið að breyta til og er ég pottþéttur á því að þetta sumar verður ekki toppað á næstu árum, ef einhvern tímann. Það er öllu rólegra í kvennaboltanum en ég hef ég ekki heyrt af neinum risa félagaskiptum ennþá.
Fastir liðir eins og venjulega
Það hafa margir spurt mann hvort það fari ekki að koma tíðindi úr Vesturbænum en við KR-ingar erum sallarólegir. Það hafa auðvitað verið fastir liðir eins og venjulega þetta sumarið. Frá því ég fór úr Fjölni yfir í KR fer alltaf sama sagan á flug: „nú fer Hössi (Hörður Axel Vilhjálmsson) í KR“, segja margir. Þetta er þriðja árið í röð sem þessi saga nær góðu flugi. Svo hrapar hún fljótt aftur þegar fréttir berast af því að Hössi sé búinn að semja erlendis eða við annað lið hérna heima. Þá tekur annar fastur liður við og hann er svona: „er Kobbi (Jakob Sigurðarson) að koma og vera með ykkur næsta vetur?“ klikkar ekki og verður maður stundum þreyttur á að svara þessari spurningu mörgum sinnum dag. Auðvitað væri frábært að fá Jakob aftur í KR og virkilega gaman að þjálfa hann aftur. Líkurnar á að það gerist geta þó ekki talist miklar. Í fyrsta lagi var Jakob að spila dúndurvel í Ungverjalandi sem hlýtur að auka líkurnar á því að hann fari aftur til Spánar eða aðra deild á meginlandinu. Í öðru lagi er Jakob með flotta ferilskrá sem selur. Hann stóð sig gríðarlega vel í College, átti mjög gott tímabil á Spáni og fór hamförum lengi vel í fyrra. Í þriðja lagi hefur hann verið að leika vel með landsliðinu og var jafn besti leikmaður A-landsliðsins í Litháen, hafa menn þar í landi sagt mér og hrifust mjög svo af honum. Fyrir mér eru líkurnar á að Kobbi fái ekki tilboð erlendis frá jafn miklar og ég yrði lagður inn á spítala vegna gruns um anorexiu. En auðvitað kæmi ekki á óvart að hann vildi spila með stórveldinu.
Ótímabærar skóhillur
Eins og alltaf eftir hvert tímabil íhuga einhverjir leikmenn að leggja skóna á hilluna. Sumir hætta alveg, aðrir þurfa nokkrar tilraunir og sumir geta hreinlega ekki hætt þrátt fyrir að það sé búið að halda þeim veglegt kveðjuhóf. Maður hefur heyrt að þeir Gunnar Einarsson, Keflavík, og Eiríkur Önundarson, ÍR, séu að spá í sínum málum í sumar og yrðu miklir sjónarsviptir af þessum kempum ef þeir ákveða að leggja skóna á hilluna. Báðir búnir að vera lengi í boltanum og vilja hugsanlega gera eittvhað annað svona síðustu árin áður en þeir fara á ellilífeyri. Eiríkur byrjaði á sínum tíma með gullaldarliði ÍR með Kristni Jörundssyni, Þorsteini Hallgrímsyni og fleiri snillingum úr því liði um miðja síðustu öld. Hann lék með goðsögnum eins og Einari Bollasyni og Kolbeini Pálssyni í drengjalandsliðinu og mynduðu Eiríkur og Kolbeinn sérstalega skeinuhætt bakvarðapar. Eiríkur átti marga af sínum bestu leikjum i Hálogalandi og fylgdi því eftir með mörgum góðum í Seljaskóla. Maður getur ekki annað en tekið hattinn ofan af fyrir honum hvað hann hefur enst í boltanum á meðan Einar og félagar snéru sér að hestum og öðru fyrir löngu síðan. Að öllum kyndingum slepptum þá skora ég á þá báða að sleppa því að smíða skóhillu fyrir alla körfuboltaskóna því þeir eru á besta aldri.
Það bárust fréttir af því um daginn að Portland JAILblazers væru að bera víurnar í Jón Arnór Stefánsson og vildu fá hann til að spila í NBA sumardeildunum sem eru haldnar í júlí. Það var eiginlega fyrir mistök sem þessi frétt barst hingað þar sem einhver setti nafnið hans á rosterinn þrátt fyrir að hann væri búinn að afþakka gott boð. Hann var nefnilega búinn að lofa sig í Stjörnugólf hérna heima. Núna rjúka einhverjir upp hneykslaðir og því best að draga þetta með Stjörnugólfið strax til baka svo einhverjir fari nú ekki að halda að það sé ástæðan. Staðreyndin er sú að Jóni hefur verið boðið í NBA sumardeildina af hinum og þessum liðum frá því hann óskaði eftir að losna undan samningi hjá Dallas Mavericks fyrir fjórum árum. Það yrði of langt mál að fara yfir hér út á hvað NBA sumardeildin gengur út á en það hefur ekki heillað Jón hingað til að spila í henni. Hann fór í gegnum þann pakka með Dallas. Scott Skiles, fyrrverandi þjálfari Chicago Bulls og núverandi þjálfari Milwaukee Bucks, hefur alltaf verið hrifinn af Jóni sem dæmi um áhuga NBA liðanna.
Jón Arnór og NBA
Reglulega er maður spurður hvort Jón eigi eftir að fara aftur í NBA. Fyrir alla körfuboltaáhugamenn er NBA deildin toppurinn og menn sjá deildina með glampa í augum. Það eru ekki allir sem átta sig á því á hvaða „leveli“ Jón er að spila í dag. Að vera að spila í Euroleague er meira en að segja það. Þó vissulega hafi verið gaman fyrir Jón að vera í liði með Steve Nash og Dirk Nowitski á sínum tíma þá voru mínúturnar af skornum skammti. Jón er einn af fjölmörgum leikmönnum í Evrópu sem gæti verið á NBA roster og verið að spila 5-15 mínutur í leik og verið í stuðningshlutverki við stjörnurnar. En þessir fjölmörgu leikmenn kjósa það að spila lykilhlutverk í sínu liði í topp deildum í Evrópu þar sem þeir eru aðalkarlarnir og helstu stjörnurnar. Bestu leikmönnum Evrópuboltans er boðið á hverju ári að koma og spila í NBA. Einhverjir slá til, prófa allavega en aðrir segja pass. Aðalástæðan fyrir því að svo margir segja pass við NBA liðunum er sú að þessir leikmenn eru með feita samninga sem NBA liðin geta hreinlega ekki toppað vegna launareglna hjá NBA deildinni. Nú hugsa einhverjir að það sé ekki séns að liðin í Evrópu séu að borga meira en NBA liðin. Það eru nefnilega komnir ótrúlegir peningar í boltann í Evrópu. Vissulega eru stjörnunar í NBA deildinni á miklu hærri launum en allir leikmenn í Evrópu en það eru bara þeir allra bestu. Leikmenn sem eru varamenn í NBA geta í mörgum tilfellum þénað betur utan NBA. Tökum sem dæmi leikmann Litháenska landsliðsins Sarunar Jasikevicius sem íslenska landsliðið var að kljást við. Hann ákvað að prófa eitt tímabil í NBA og lék með Indiana Pacers. Átti fínt
nýliðatímabil og var með 7,3 stig. Hann gerði samning upp á 320 milljónir og þó svo að Pacers hefðu viljað borga honum meira þá er bara ákveðið hámark sem má borga mönnum. Það fer síðan hækkandi með árunum sem menn spila í NBA. Vegna hversu háa skatta hann þarf að borga í USA og hin og þessi gjöld sem NBA leikmenn þurfa greiða hefur hann fengið c..a helming í vasann, eða 160 milljónir. Alls ekki slæm laun myndi einhver segja en í Grikklandi í vetur hefur hann verið að fá í vasann um 450 milljónir. Í þessum stærstu deildum í Evrópu eru menn ekki að borga skatta af neinu ráði þar sem þeir eru flokkaðir sem listamenn.
{mosimage}
(Þorsteinn Ragnarsson)
Þórsarinn síkáti
Nóg af einhverju talnarausi sem enginn nennir að lesa og ætla ég að loka þessum pistli á Þorsteini Ragnarssyni sem kemur úr Þorlákshöfn og er 15 ára efnilegur bakvörður. Ótrúlega skemmtilegur drengur sem er ávallt sátur við lífið og tilveruna. Ég heiti einni milljón á þann sem nær mynd af honum ekki brosandi. Það eru meiri líkur á að finna fjögurra laufa smára en að sjá Þorstein alvörugefinn. Þessi drengur lætur dómarann brosmilda, Erling Snæ Erlingsson, og fjölmiðlasnillinginn Hemma Gunn, líta út fyrir að glíma við alvarlegt þunglyndi. Þorsteinn er alhliða bakvörður sem getur gert flest en er ekki snillingur í neinu. Má vera frekari á skotin í sókninni og hefur maður á tilfinningunni að hann geri sér enga grein fyrir hversu góður hann er. Þeir drengir sem ég hef tekið fyrir í þessum pistlum eiga það allir sameiginlegt að vera óeigingjarnir en Þorsteinn er of óeigingjarn oft á tíðum fyrir leikmann af þessari getu. Leikstjórnendastaðan er sú staða á vellinum sem verður væntanlega hans framtíðarstaða og hann lærir vonandi á næstu árum galdurinn að lesa hvenær hann á að spila upp á aðra og hvenær hann á að taka af skarið sjálfur. Hann er ágætis skotmaður og góður að sækja á körfuna. Berst á báðum endum vallarins en þarf að styrkja sig líkamlega til að vera enn öflugri. Hefur stórbætt boltatæknina og er frábær frákastari fyrir bakvörð.
Benedikt Guðmundsson