09:07
{mosimage}
(Benedikt við stjórnartaumana gegn Grindavík)
Mögnuð bikarhelgi er framundan og ræðst það hvaða lið munu leika til úrslita í Laugardalshöll um Subwaybikarmeistaratitilinn. Topplið KR og Grindavík mætast í undanúrslitaleik á morgun sem beðið er eftir með mikilli spennu. Leikurinn hefst kl. 16:00 í DHL-Höllinni í Vesturbænum en fólk er hvatt til að mæta alls ekki seinna en kl. 15:00 þar sem von er á fullu húsi! Karfan.is ræddi við Benedikt um leikinn á morgun og hann viðurkenndi fúslega að vera orðinn spenntur fyrir leiknum.
Verður ekki stútfullt út úr dyrum í DHL-Höllinni á morgun?
Jú, það verður stútfullt hérna og ég held að það verði nóg í boði. Einhver atriði og þá verða örugglega grillaðir hamborgarar og svo veit ég að Erpur Eyvindarson ætlar að mæta og kasta nokkrum rímum. Það mun ekkert vanta upp á umgjörðina skilst mér, ekkert verið að skera niður þar!
Ertu orðinn spenntur fyrir leiknum?
Já, ekki spurning. Þetta er stærsti leikurinn hingað til á tímabilinu og við höfum spilað tvo hörkuleiki við þá hingað til. Við unnum á flautukörfu í Poweradebikarnum gegn þeim og svo með tveimur stigum hér heima í deildinni þannig að þetta hafa bara verið þvílíkir spennuleikir.
Þurfið þið að nálgast Grindavík eitthvað öðruvísi eftir að þeir fengu Nick Bradford til liðs við sig?
Nick Bradford styrkir Grindavík þvílíkt! Hann er ekki leikmaður sem tekur leikinn í eigin hendur og klárar með því að skora 50 stig en hann styrkir þá andlega með þessum karakter sínum og sigurhugarfari. Nick Bradford er náttúrulega frábær leikmaður og styrkir Grindavík á marga vegu og hann þekkir ekkert annað en að vinna hér á Íslandi svo þessi tvö lið, KR og Grindavík, eru orðin svakalega jöfn.
Eru allir með, klárir í slaginn og heilir?
Ég vona það, við reynum að tjalda öllu til en erum með Jón Arnór, Fannar og Helga í smá meiðslum svo það verður bara að koma í ljós hvernig þeir verða. Menn spila bara meiddir ef út í það er farið þó vissulega væri betra að hafa þá í toppstandi. Svona er bara sportið, menn meiðast og það er ekkert við því að gera.
Eru Vesturbæingar orðnir langeygir eftir bikarmeistaratitlinum sem ekki hefur sést þar á bæ síðan árið 1991?
Klárlega, KR hefur ekki haft lukkuna með sér í bikarkeppnum í ansi langan tíma og maður sér það bara á drættinum núna í vetur. Við fengum Snæfell, Keflavík og svo Grindavík og þetta eru bestu liðin í kringum okkur. Svona er þetta búið að vera hjá KR í ansi langan tíma. Svona er samt bara bikarinn en við teljum okkur hafa alla burði til þess að tækla þessi verkefni.
Má kalla leik liðanna á morgun hinn eina sanna bikarúrslitaleik?
Nei það er ekki hægt. Þetta er bikarinn og í öllum þessum leikjum er það dagsformið sem ræður miklu og það lið sem vinnur þennan leik er ekkert endilega orðið bikarmeistari. Auðvitað eru þetta kannski tvö sterkustu liðin en bikarinn er öðruvísi. Fjölnir féll í fyrra en lék samt til bikarúrslita og það sýnir að það er ekkert endilega alltaf besta liðið sem verður bikarmeistari. Til að vinna bikarinn þurfa öll liðin í undanúrslitum að vinna einn leik til viðbótar og hvort sem það er KR eða Grindavík þá þarf að klára Njarðvík eða Stjörnuna. Við rétt náðum sigri gegn Stjörnunni og Grindavík tapaði gegn þeim svo það er enginn orðinn bikarmeistari eftir þessa helgi.
Ertu bjartsýnn á morgundaginn?
Já já, ég hef enga ástæðu til annars en ég held að bæði lið geti verið bjartsýn enda bæði fyrnasterk.