spot_img
HomeFréttirBenedikt Guðmundsson: Kominn heim

Benedikt Guðmundsson: Kominn heim

{mosimage}

Benedikt Guðmundsson var nýverið ráðinn þjálfari meistaraflokks KR en hann hefur þjálfað Fjölni við góðan orðstír síðustu þrjú ár. Benedikt er KR-ingur að upplagi og því óhætt að segja að hann sé ,,kominn heim” til gamla félagsins. Karfan.is náði á Benedikt, með herkjum þó, en hann er í óðaönn þessa dagana við að undirbúa U 18 ára landsliðið fyrir Norðurlandamótið í Svíþjóð síðar í mánuðinum en svo mun U 18 ára liðið taka þátt í Evrópukeppni A þjóða síðar í sumar.

Stóð ekki til

,,Að taka við KR var ekki eitthvað sem stóð til, ég hafði ætlað mér að vera áfram í Grafarvogi. Þegar það kom í ljós að Herbert myndi ekki vera áfram með KR fór ég að fá hringingar frá hinum og þessum KR-ingum sem spurðu mig hvort ég ætlaði ekki að taka við liðinu,” sagði Benedikt en það var að lokum formaður KKD KR sem náði að sannfæra Benedikt um að ganga á ný til liðs við félagið.

—————————–

Góður tími í Grafarvogi

Benedikt þjálfaði Fjölni í þrjú ár og kom þeim á kortið í íslenskum körfubolta svo um munaði. Liðið var í 1. deild þegar Benedikt tók við því en hafnaði í 2. sæti 1. deildar og fór þá í úrvalsdeild. ,,Fyrsti veturinn í úrvalsdeild var ævintýralegur, við fórum í úrslit í bikarnum og undanúrslit Íslandsmótsins og vorum þar að auki heppnir með útlendinga,” sagði Benedikt sællar minningar. ,,Ég tók aðeins til hjá félaginu og gerði m.a. margar breytingar á meistaraflokki og tók mikið af ungum strákum í liðið og það skilaði sér vel,” sagði Benedikt. ,,Ég sé ekki eftir einum klukkutíma í Grafarvogi.”

—————————————–

Byggja ofan á núverandi hóp

KR er fornfrægt félag og þar leynir pressan sér ekki, hungrið eftir titli

er mikið enda langt síðan síðasti titill kom í hús. ,,Það er alltaf krafa um titla í vesturbænum þó þeir hafi verið af skornum skammti síðustu 15 ár. Hér á að búa til lið sem verður gott lið í meira en eitt ár, við ætlum að byggja til framtíðar. Þessa stundina legg ég gríðarlega áherslu á það að halda sama íslenska leikmannahóp og var hjá félaginu á síðustu leiktíð en við munum ekki endurráða þá Bogavac og Melvin Scott,” sagði Benedikt. Við munum svo byggja ofan á núverandi hóp og mjaka okkur upp á við og halda okkur ofarlega,” sagði Benedikt sem er á meðal reyndustu körfuknattleiksþjálfara landsins.

————————–

Stefnum á alla titla

,,Ég hefði aldrei tekið þetta starf að mér nema ég hefði trú á því að við gætum unnið alla þá titla sem í boði verða,” sagði Benedikt sem sagðist ekkert stressa sig á því ef KR yrðu ekki Powerademeistarar svo framarlega að stígandi væri í liðinu. ,,Ef við náum að halda liðinu tiltölulega óbreyttu í þessi tvö ár sem ég er með samning þá gætu góðir hlutir gerst."

————————————-

Leikur KR liðsins næstu leiktíð

Benedikt er jafnan þekktur fyrir að láta sín lið spila grimma vörn en hvernig mun hann haga málum hjá KR. ,,Ég hef alltaf viljað spila bolta á fullum velli, það hefur aldrei verið neitt leyndarmál. Við náðum að gera það nokkuð vel hjá Fjölni fyrstu 2 tímabilin og þetta er eitthvað sem ég vil innleiða hjá KR, hraða leik liðsins og þetta verður gert í mörgum og litlum skrefum,” sagði Benedikt en með komu hans í vesturbæinn geta leikmenn meistaraflokks átt von á ströngu undirbúningstímabili.

 

Suðurnesjaliðin Njarðvík, Keflavík og Grindavík hafa síðustu ár og áratugi verið með bestu lið landsins og er ekki útséð með hvort þeim verður skákað á næstunni. Benedikt telur að árangur Suðurnesjaliðanna sé lofsverður en geti þó valdið einsleitni í íþróttinni. ,,Frá því ég man eftir mér hafa Suðurnesjaliðin verði ráðandi öfl í boltanum. Ég tel að munurinn á Suðurnesjaliðunum og öðrum liðum sé sá að þegar allt er komið í járn eru strákarnir frá Suðurnesjum grimmari, drápseðlið er til staðar og kannski smá ruddaskapur gerir vart við sig og allt þetta sameinast í sigurviljanum sem fleytir þeim eins langt og raun ber vitni,” sagði Benedikt þegar hann var beðinn um að reyna að útskýra hvað það væri sem Suðurnesjaliðin hefðu fram yfir önnur lið. ,,Þér er bara hent í sumarfrí ef þú ert ekki smá töffari,” sagði Benedikt og var augljóslega að senda smá skilaboð.

{mosimage}

Landsliðin

Benedikt mun halda til Svíþjóðar síðar í mánuðinum með U 18 ára lið Íslands þar sem það tekur þátt í Norðurlandamótinu en síðar í sumar mun liðið taka þátt í lokakeppni Evrópukeppni A þjóða. ,,Í lokakeppni Evrópukeppninnar verður allt lagt í sölurnar um að halda liðinu sem A þjóð. Bara það eitt að við skulum hafa komist þangað er alveg magnað, þessi árangur hefur vakið miklu meiri athygli erlendis en hann hefur nokkurn tíman gert hér heima og menn erlendis bara skilja þetta ekki hvað Ísland sé að gera í lokakeppnum EM bæði í U16 og U18,” sagði Benedikt sem hefur í mörg horn að líta í sumar og segist jafnvel vera uppteknari yfir sumartímann en veturinn.

,,Gæðin í íslenskum körfuknattleik eiga eftir að aukast, ég er ekki í vafa um það. Árgangarnir í körfunni eru alltaf að verða betri og betri og því er framtíðin gríðarlega björt í íþróttinni hér heima,” sagði Benedikt að lokum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig tekst til hjá KR og Benedikt á næstu leiktíð og mun honum takast það sem fyrirrennurum hans hefur ekki tekist í langan tíma?

Viðtal og myndir:

nonni@karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -