spot_img
HomeFréttirBelfius Mons létu þristana berja á KR-ingum

Belfius Mons létu þristana berja á KR-ingum

Það var spenningur í DHL Höllinni í kvöld, íslenskt lið að fara að keppa í evrópukeppni í fyrsta sinn í 10 ár. Gestirnir að þessu sinni voru Belfius Mons frá Belgíu. Það er skemmst frá því að segja að eftir jafnan fyrri hálfleik þá áttu gestirnir 3. leikhluta og opnuðu leikinn upp á gátt og sigldu heim þægilegum sigri. Lokatölur: 67 – 88 gestunum í vil.
 

Bestur KR-inga í kvöld var Jalen Jenkins sem setti 22 stig og tók 16 fráköst. Hjá Belgunum var Tre Demps atkvæðamestur með 27 stig og 6 fráköst.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Gestirnir frá Belgíu hittu gríðarlega vel utan af velli og það var mestmegnis það sem skildi liðin að í kvöld. Sérstaklega var nýtingin góð fyrir utan þriggja stiga línuna þar sem liðið hitti úr 12 af 20 skotum sínum. Það gerir 60% nýtingu. Á sama tíma þá voru KR-ingar kaldir fyrir utan og settu einungis niður 20% af sínum þristum. Erfitt að vinna leiki með þannig nýtingu.

 

Slæmur dagur

Björn Kristjánsson, sem kom aftur til KR í sumar eftir að hafa leikið í Njarðvík síðasta vetur átti slæman leik í kvöld. Björn klikkaði úr öllum 4 skotum sínum á 22 mínútum og átti erfitt uppdráttar varnarlega. Einnig átti Brynjar Þór erfiðan dag, hann er alger lykilmaður í liðinu og 3 þristar af 13 teknum er ekki nógu gott.  

 

Nýr erlendur leikmaður

KR-ingar frumsýndu nýjan erlendan leikmann, Jalen Jenkins. Hann leit virkilega vel út í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik en svo dró örlítið af honum enda tímabilið rétt að byrja. Hann getur dripplað boltanum, sér völlinn ágætlega í kringum sig og er góður að klára í kringum körfuna. Einnig lítur hann út fyrir að vera góður frákastari, það verður spennandi að sjá hann í deildinni í vetur.

 

Framhaldið

Þetta er ekkert sérstaklega flókið, KR þarf að vinna 22 stiga sigur í Belgíu til þess að komast áfram. Miðað við leikinn í kvöld verður það virkilega erfitt verkefni.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leik (Bára Dröfn)

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Fréttir
- Auglýsing -