,,Nú er glatt á hjalla enda erum við búnir að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum okkar,“ sagði Bárður Eyþórsson glaðbeittur eftir sigur Tindastóls á KR í Iceland Express deild karla. Sigurinn var kærkominn í Skagafirði enda um síðasta heimaleik Stólanna á þessu ári að ræða og tvö stig í hús eftir framlengda spennuviðureign gegn ríkjandi Íslands- og bikarmeisturunum úr vesturbæ. Tindastóll situr nú í 10. sæti deildarinnar með 6 stig.
,,Þetta var svona frekar mistækt í upphafi en ágætis varnartilburðir, á köflum vorum við að spila ágætlega. Við missum KR aðeins framúr okkur en erum svo sterkari á lokasprettinum,“ sagði Bárður sem unnið hefur mikið í því að fá íslenska kjarnann í liðinu til að axla meiri ábyrgð í leik liðsins.
,,Þeir þurfa að taka meiri ábyrgð og gerðu það í kvöld. Við erum að laga sóknarleikinn okkar og erum að skora nóg en viljum laga flæðið hjá okkur og fá íslensku leikmennina til að stíga upp og það er að koma hægt og sígandi. Mínir menn lögðu sig virkilega fram og eldri leikmenn liðsins hafa verið að setja þeim yngri fordæmi í þeim efnum og það er flott,“ sagði Bárður en er hann farinn að sjá sitt handbragð á liðinu?
,,Ég veit það ekki, menn verða bara að meta það en ég er enn ekki fullkomnlega sáttur, það er of mikið af feilum varnarlega ennþá og ég sætti mig ekki við það, flæðið lítur stundum út eins og við séum að spila ,,street-ball“ en stigin í kvöld eru okkar svo við gleðjumst mjög yfir því,“ sagði Bárður sem lokaði Síkinu þetta árið með sigri.
,,Virkilega ánægjulegt og það er tæpur einn og hálfur mánuður síðan ég kom á Krókinn og staða okkar hefur batnað mikið og meiri trú komin í liðið. Æfingarnar hafa verið á háu ,,tempói“ svo það er að skila sér inn í leik liðsins og þetta skánar bara með auknum vilja og áhuga.“
Mynd/ [email protected] – Bárður var hinn kátasti þegar Karfan.is ræddi við hann í kvöld.