spot_img
HomeFréttirBaráttusigur KR á Fjölni

Baráttusigur KR á Fjölni

Hörkuleikur fór fram í dag þegar KR tók á móti Fjölni í DHL-höllinni í 1. deild kvenna. Fjölnisstúlkur hófu leikinn af krafti, náðu að leysa ágætlega úr pressuvörn KR og voru komnar með 5 stiga forskot, 4-9, eftir rúmlega fjögurra mínútna leik. Erfiðlega gekk í sókninni hjá heimastúlkum í byrjun en þær náðu að minnka forystu Fjölnis í tvö stig fyrir lok fjórðungsins, 12-14. Gestirnir gáfu ekkert eftir í öðrum leikhluta og náðu mest 11 stiga forystu um miðbik hans. KR hrökk þá í gang, voru grimmar að sækja sóknarfráköst og minnkuðu muninn í fjögur stig, 32-36, áður en liðin gengu til klefa í hálfleik.

Þriðji leikhluti var eign heimastúlkna á meðan hvorki gekk né rak hjá Fjölni í sókninni og skoruðu gestirnir ekki nema tvö stig í leikhlutanum. Perla Jóhannsdóttir kom KR yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar skammt var liðið á seinni hálfleik og leiddu þær eftir þriðja leikhluta með 9 stigum, 47-38. Fjölnisstúlkur voru ekki á því að hleypa KR lengra frá sér og skoruðu fyrstu 8 stig fjórða leikhluta og munurinn því kominn niður í 1 stig. KR var þó sterkari á lokasprettinum og sigldi heim 9 stiga sigri, 61-52.

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með tröllatvennu í liði KR með 20 stig og 20 fráköst auk þess að gefa 5 stoðsendingar og stela 5 boltum, Perla Jóhannsdóttir bætti við 14 stigum og 4 fráköstum og Kristbjörg Pálsdóttir skoraði 8 stig og stal 4 boltum. Hjá Fjölni var Fanney Ragnarsdóttir með 16 stig og 6 fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir með 14 stig og 10 fráköst og Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir með 9 stig og 12 fráköst.

KR-Fjölnir 61-52 (12-14, 20-22, 15-2, 14-14)

KR: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 20 stig/20 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Perla Jóhannsdóttir 14 stig/4 fráköst, Kristbjörg Pálsdóttir 8 stig/4 stolnir, Rannveig Ólafsdóttir 7 stig/8 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 5 stig/8 fráköst, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 4 stig/4 fráköst/5 stoðsendingar, Veronika Sesselju-Lárusdóttir 2 stig, Ásta Júlía Grímsdóttir 1 stig/5 fráköst, Margrét Blöndal 0 stig.

Fjölnir: Fanney Ragnarsdóttir 16 stig/6 fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir 14 stig/10 fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 9 stig/12 fráköst, Sigrún Anna Ragnarsdóttir 6 stig, Erna María Sveinsdóttir 5 stig/4 fráköst, Margrét Eiríksdóttir 2 stig/5 fráköst, Aníka Linda Hjálmarsdóttir 0 stig/6 fráköst, Kristín María Matthíasdóttir 0 stig, Hanna María Ástvaldsdóttir 0 stig, Snæfríður Birta Einarsdóttir 0 stig, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0 stig, Elísa Birgisdóttir 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -