spot_img
HomeFréttirBaráttuglaðir Ísfirðingar unnu öruggt

Baráttuglaðir Ísfirðingar unnu öruggt

 
Í kvöld mættust Stjarnan og KFÍ í Lengjubikar karla. Leikurinn fór fram í Ásgarði og myndi sigurvegari leiksins mæta KR-ingum í átta liða úrslitum fyrrgreinds Lengjubikars. 
Leikurinn byrjaði ágætlega. Ljóst var að leikmenn KFÍ ætluðu að selja sig dýrt frá fyrstu mínútu en þeir börðust eins og ljón. Stjörnumenn voru þó skrefi á undan fyrsta leikhlutann en Ísfirðingar fylgdu þeim eins og skugginn. Staðan að loknum fyrsta fjórðungi var jöfn 25-25. Í öðrum leikhluta var sama uppi á teningnum. Stjörnumenn virtust hafa yfirhöndina en leikmenn KFÍ voru ekki á því að hleypa heimamönnum of langt fram úr sér og einkenndist leikurinn af mikilli baráttu en þó ágætis körfubolta. Staðan í hálfleik var 51-45, Stjörnunni í vil. Eitthvað hefur Bob Aldridge þjálfari KFÍ kveikt í sínum mönnum í hálfleiksræðu sinni enda komu þeir dýrvitlausir úr klefanum. Á meðan heimamenn virtust eiga í miklum erfiðleikum með að fá skotin rétta leið gengu gestirnir á lagið og komust fljótlega yfir. Stjörnumenn héldu sér þó inni í leiknum og eftir þrjá leikhluta var staðan 66-68 gestunum í vil og allt útlið fyrir spennandi lokafjórðung. Útlitið virðist þó hafa blekkt marga því fljótlega tóku Ísfirðingar öll völd á vellinum. Þeir spiluðu flottan körfubolta og komust hæst í 17 stiga forystu. Fór svo að KFÍ sigraði nokkuð örugglega 96-108.
KFÍ menn komu mörgum á óvart í kvöld enda er Stjörnunni spáð mjög góðu gengi í Iceland Express deildinni í vetur. Nýliðarnir létu það ekki á sig fá og börðust eins og þeir ættu lífið að leysa. Ari Gylfason var sérlega skæður í sókn þeirra en hann skoraði 25 stig og hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum, hvorki meira né minna. Stjörnumenn geta þó ekki verið ánægðir enda undirbúningstímabilið líklega ekki verið eins gott og þeir vildu. Þó er spurning hvort ekki sé gott að taka slæma leiki út á undirbúningstímabilinu, áður en deildin hefst.
 
Stjarnan: Jovan Zdravevski 30/10 fráköst/7 stoðsendingar, Justin Shouse 18/6 stoðsendingar, Daníel G. Guðmundsson 15, Fannar Freyr Helgason 13/5 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 5, Marvin Valdimarsson 4/4 fráköst, Birgir Björn Pétursson 4, Guðjón Lárusson 4, Ólafur Aron Ingvason 3, Ottó Þórsson 0, Birkir Guðlaugsson 0, Dagur Kár Jonsson 0.
KFI: Ari Gylfason 25, Edin Suljic 18/9 fráköst, Carl Josey 15/5 fráköst, Darco Milosevic 15/11 fráköst, Craig Schoen 14/6 fráköst/9 stoðsendingar, Leó Sigurðsson 12/5 fráköst, Hjalti Már Magnússon 4, Pance Ilievski 3/4 fráköst, Daði Berg Grétarsson 2, Gautur Arnar Guðjónsson 0, Sigmundur Helgason 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson
 
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodzejski: Ari Gylfason snögghitnaði í kvöld og setti sex þrista í leiknum.
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -