Njarðvíkingar fóru nokkuð létt með gesti sína úr Grafarvoginum í kvöld þegar lið UMFN og Fjölnis mættust í Ljónagryfjunni. 119:66 var lokastaða leiksins og rétt eins og tölurnar gefa til kynna þá var sigur heimamanna nokkuð öruggur.
Njarðvík leiddi 60:31 í hálfleik og gat Einar Árni Jóhannsson þjálfari þeirra grænklæddu leyft sér að dreyfa mínútum vel á mannskap sinn. Ágúst Orrason var stigahæstur að þessu sinni og setti niður 26 stig (6/8 þristum) og Elvar Már Friðriksson kom honum næstur með 25 stig og 10 stoðsendingar en báðir léku þeir rétt rúmar 20 mínútur í leiknum.
Hjá Fjölnismönnum var það Emil Þór Jóhannsson sem var þeirra atkvæðamestur í skorun þetta kvöldið með 17 stig.