Keflavík fóru nokkuð létt í gegnum granna sína í Njarðvík öðru sinni á skömmum tíma. Leikurinn var allan tímann í höndum Keflvíkinga og spilaðist að miklu leiti eins og leikurinn í Lengjubikarnum fyrir skömmu. Njarðvíkingar sýndu aldrei nein tilþrif eða grimmd í það að reyna að taka stigin sem í boði voru. Keflvíkingar vel að sigrinum komnir.
Til að byrja með voru bæði lið að finna sig ágætlega. En þó voru Keflvíkingar ákveðnari í sínum aðgerðum og komust fljótlega í forystu en aldrei þannig að Njarðvíkingar voru langt frá þeim. Sókn Njarðvíkinga var afar stirð og einföld. Einföld á þann veg að tveir menn áttu að klára þetta fyrir þá eða þeir Travis Holmes og Cameron Echols. Cameron skilaði sínu þegar yfir stóð en Travis Holmes var aðeins skugginn af sjálfum sér.
Allar aðgerðir gestanna voru gerðar í miklum taugaóstyrk á meðan sjálfstraustið var heimamanna. Steven Gerard var að venju í stóru hlutverki og var að hitta vel, ekki nema von því flest hans skot voru án nokkurs varnarmanns í 3 metra radíus. Í hálfleik var staðan 46:35 heimamönnum í vil.
Maður hefði nú ætlað að Njarðvíkingar ætluðu sér ekki að láta taka sig annað skiptið í röð illa af Keflvíkingum og myndu mæta í seinni hálfleik dýrvitlausir. En allt kom fyrir ekki. Keflvíkingar hömruðu stálið meðan það var heitt og þegar þriðji fjórðungur var yfirstaðinn voru þeir komnir í 68:52.
Kannski eru menn að ætlast til of mikils af þessu unga Njarðvíkurliði eftir að þeir hafa sýnt fína takta í upphafi móts. Eða hugsanlega eru hin liðin byrjuð að taka þeim alvarlega og spila því grimmar á móti þeim. En það afsakar hinsvegar ekki það að liðið mæti til leiks með hálfum hug. Það verður ekki tekið af Keflvíkingum að þeir spiluðu af krafti og uppskáru algerlega eftir því. Almar Guðbrandsson miðherjinn stæðilega hjá Keflavík vex með hverjum leik og Valur Orri skilar góðum mínútum. Ragnar Albertsson tekur við keflinu af föður sínum (Alberti Óskars) og skilar góðum mínútum gegn Njarðvík í það minnsta. En maður leiksins var Steven Gerard með 30 stig og 7 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Cameron Echols nánast eini með meðvitund, skilaði sínu eða 25 stigum og 10 fráköstum. Aðrir voru langt frá sínu besta.
Keflavík: Steven Gerard Dagustino 30/7 stoðsendingar, Jarryd Cole 26/10 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 11/6 fráköst, Charles Michael Parker 10/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Gerald Albertsson 9, Valur Orri Valsson 3/4 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 2, Sigurður Friðrik Gunnarsson 1, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
Njarðvík: Cameron Echols 25/10 fráköst, Travis Holmes 16/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 13/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 9, Jens Valgeir Óskarsson 6, Styrmir Gauti Fjeldsted 2, Maciej Stanislav Baginski 1, Rúnar Ingi Erlingsson 0/5 stoðsendingar, Sigurður Dagur Sturluson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Elvar Már Friðriksson 0.
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Einar Þór Skarphéðinsson