spot_img
HomeFréttirAuðveldir sigrar hjá toppliðunum

Auðveldir sigrar hjá toppliðunum

00:53:34
Toppliðin í Austurdeild NBA unnu öll leiki sína sem fóru fram fyrr í kvöld. Orlando vann Toronto, 90-113 ,  þar sem Dwight Howard fór á kostum sem endranær og var með 29 stig og 14 fráköst. Félagi hans, Jameer Nelson, var með 18 stig , 10 stoðsendingar og 8 fráköst, rétt undir þrennunni. Jose Calderon var með 16 stig fyrir Toronto.
Þá vann Boston sinn 11. leik í röð þegar þeir lögðu Minnesota, 109-101 . Kevin Garnett gat ekki mætt sínu gamla liði sökum veikinda en það kom ekki að sök þar sem Paul Pierce átti stórleik með 36 stig. Al Jefferson, sem fór frá Boston í skiptum fyrir Garnett átti einnig góðan leik með 34 stig og 11 fráköst og Randy Foye var með 21 en það dugði ekki til. Ray Allen bætti við 22 stigum fyrir Boston Og Glen Davis, sem fyllti í skarð Garnetts var með 12 stig.

Þá lagði Cleveland Detroit að velli, 80-90 , þar sem góð frammistaða Mo Williams og Daniel Gibson í fjórða leikhluta kafsigldi Detroit, sem voru með neikvætt vinningshlutfall í janúar. Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Detroit á svo slæman mánuð, en það gerðist síðast rétt áður en Rasheed Wallace kom til liðsins og fyllti upp í meistarahóp Pistons, sem síðar liðaðist í sundur. LeBron James sat á bekknum á meðan félagar hans tóku stjórnina í fjórða leikhluta, en hann kom inn á undir lokin og gerði endanlega út um leikinn. Hann var að venju stigahæstur Cleveland með 33 stig, en Williams var með 22. Allen Iverson var með 22 stig fyrir Detroit, sem virðist í mikilli tilvistarkreppu um þessar mundir.

Loks unnu Sacramento sigur á Oklahoma Thunder, 122-118 , í framlengdum leik milli tveggja af þremur verstu liðunum í Vestrinu. Afmælisbarn dagsins, Kevin Martin skoraði 37 stig fyrir Kings sem rufu þar með átta leikja taphrinu, en leikurinn hafði annars lítið gildi annað en heiðurinn að ógleymdum borðtenniskúlunum í Nýliðavals-lottóinu í vor.

Tilþrif leiksins átti Jeff Green hjá Oklahoma sem jafnaði leikinn undir lok venjulegs leiktíma, en hann fór á vítalínuna þegar 2 sek voru eftir og Thunder var 3 stigum undir. Hann hitti úr fyrra vítinu, klikkaði á því seinna, greip frákastið sjálfur, skaut í loftinu og smellhitti. Kings voru svo mun sterkari í framlengingunni þar sem Bobby Jackson fór fyrir sínum mönnum.

Þó mætti minnast á frammistöðu Russel Westbrook, en nýliði Oklahoma átti stórleik og skoraði 34 stig og gaf 8 stoðsendingar.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -