Haukar mættu Skallagrími í toppslagi 1. deildar í Borgarnesi í kvöld. Fyrirfram var búist við hörkuleik því ljóst að liðið sem myndi sigra yrði í efsta sæti eftir leikinn. Haukar telfdu fram nýjum leikmanni, Landon Quick, sem mætti sínum gömlu félögum í sínum fyrsta leik fyrir Hafnarfjarðarliðið en hann lék með Skallagrím í fyrra í Iceland Express-deildinni. Átti hann fínan leik í kvöld fyrir þá rauðu.
Til að gera langa sögu stutta sigruðu Haukar með 40 stiga mun, 65-105.
Það var ekki nema í fyrsta leikhluta sem að einhver vottur að spennu var í leiknum. Ingvar Guðjónsson snéri á ný í lið Hauka eftir meiðsli og byrjaði með látum. Hann setti niður tvo þrista á fyrstu mínútunni og á augabragði var staðan orðin 2-10 fyrir gestina. Skallagrímur minnkaði muninn í tvö stig 8-10 og Haukar svöruðu með sex stigum í röð og breyttu stöðunni í 8-16. Skallarnir jöfnuðu leikinn í 16-16 og þar skildu leiðir. Rauðir hertu vörnina og þegar 1. leikhluta lauk var staðan 18-29.
Áfram héldu Haukar að auka muninn og snemma í örðum leikhluta voru þeir komnir með 20 stiga forystu og fátt benti til þess að Skallagrímur myndi loka á sókn Hauka og vinna sig aftur í leikinn.
Borgnesingar eru með hörkulið og voru klárlega tilbúnir til að verja heimavöllin. Þeir minnkuðu muninn niður í 11 stig en nær komust þeir ekki. Haukar leiddu í hálfleik með 15 stigum 30-45.
Það má segja að það hafi bara verið lið Hauka sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Rauðir byrjuðu af krafti og náðu strax 12 stiga spretti og staðan 30-57 eftir aðeins tæpar þrjár mínútur. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Hauka sem var klárlega betra liðið í kvöld og voru Skallagrímur langt frá sínu besta. Leikurinn endaði eins og fyrr segir 65-105.
Landon Quick var stigahæstur Haukamanna með 24 stig og 6 stoðsendingar og Helgi Björn Einarsson var með 15 stig og 11 fráköst. Alls voru sex leikmenn sem skoruðu 10 stig eða meira.
Hjá Skallagrími var Silver Laku með 24 stig og 4 fráköst og Konrad Tota var með 16 stig.
Haukar sitja því á toppi deildarinnar með 18 stig líkt og KFÍ sem sigraði Þór Ak. í kvöld en hefur leikið einum leik meira en Haukar.