spot_img
HomeFréttirÁtakalaust í Ásgarði

Átakalaust í Ásgarði

Ísfirðingar mættu í Ásgarð í fjórðu umferð Fyrirtækjabikarsins. Heimamenn í Stjörnunni áttu harma að hefna en þeir þurftu að sætta sig við tap í fyrri rimmu liðanna á Ísafirði.
Liðin skiptust á körfum fram í miðjan fyrsta leikhluta en þá gáfu Stjörnumenn í með Dag Kár fremstan í flokki og leiddu 33-22 eftir fyrsta fjórðung. Stjarnan hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og juku við forskotið hægt og bítandi. Varnarleikur heimamanna var með ágætum og boltinn fékk að ganga vel í sókninni. Sóknarleikur gestanna var aftur á móti frekar tilviljanakenndur en leikstjórnandi þeirra Jason Smith var allt í öllu. Varnarleikurinn var ekki heldur upp á marga fiska eins og hálfleikstölur vitna um, 60-44.
 
KFÍ gerði tilraun til að stoppa upp í götin í varnarleiknum eftir leikhlé og spiluðu svæðisvörn meira og minna allan síðari hálfleikinn. Garðbæingar létu það ekki trufla sig hið minnsta og héldu áfram þar sem frá var horfið og bilið á milli liðanna breikkaði. Eftir þriðja leikhluta var staðan 82-62 heimamönnum í vil og fjórði leikhluti aðeins formsatriði. Fjórði leikhluti var ekki mjög spennandi en minni spámenn liðanna fengu að spreyta sig og sýndu þeir góða baráttu. Þó rétti það ekki hag Ísfirðinga en þeir skoruðu aðeins fjögur stig í leikhlutanum og voru lokatölur 98-66.
 
Jason Smith stóð augljóslega upp úr hjá gestunum í þessum leik, skoraði 29 stig og gaf 5 stoðsendingar. Mirko kom þar á eftir með 15 stig og 11 fráköst. Jón Hrafn skilaði svo 8 stigum og 8 fráköstum.
 
Stjörnumenn fengu ágætt framlag frá mörgum leikmönnum en Dagur Kár átti mjög góðan leik með 21 stig og 4 stoðsendingar. Sæmundur Valdimarsson (litli Marv) sýndi einnig hæfileika sína og skilaði 19 stigum og hirti 7 fráköst. Meistari Shouse lét sitt ekki eftir liggja, setti 19 stig og gaf heilar 14 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun: KV
 
  
Fréttir
- Auglýsing -