spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaArnór og Illugi til KR - Veigar framlengir

Arnór og Illugi til KR – Veigar framlengir

Það er enginn uppgjafartónn í KR-ingum þrátt fyrir fall niður í 1. deild karla en liðið samdi við tíu leikmenn á dögunum.

Arnór Hermannsson og Illugi Steingrímsson ganga til liðs við KR frá Ármanni þar sem þeir hafa leikið lykilhlutverk í uppgangi Ármenninga á síðustu tveimur árum. Í vetur í 1. deildinni var Arnór með 10,0 stig og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik en Illugi var með 12,3 stig og 5,9 fráköst að meðaltali.

Félagið endursamdi einnig við átta leikmenn sem komu við sögu á síðasta tímabil. Helstan ber þar að nefna Veigar Áka Hlynsson sem lék alla 22 leiki KR í deild á nýloknu tímabili þar sem hann var með 9,0 stig og 3,7 fráköst að meðaltali ásamt því að hitta úr 48,9% þriggja stiga skota sinna.

Gunnar Ingi Harðarson, sem upprunalega kemur úr yngri flokkum KR, hefur einnig endursamið við liðið en hann gekk til liðs við KR á áramótum frá Ármanni og lék þrjá leiki í Úrvalsdeildinni þar sem hann var með 4,7 stig í leik. Tímabilið á undan var hann besti leikmaður Ármanns er félagið fór ósigrað í gegnum 2. deildina og vann sér sæti í 1. deild eftir nokkur mögur ár.

KR endursamdi einnig við Lars Erik Bragason, Hallgrímur Árni Þrastarson, Ólafur Geir Þorbjarnarson, Gísli Þór Oddsteinsson, Mikael Snorri Ingimarsson og Emil Richter sem allir gerðu tveggja ára samning.

Fréttir
- Auglýsing -