10:02
{mosimage}
(Arnar Kárason)
Þar sem Axel Kárason verður ekki til þess að gleðja landann á parketinu í vetur hefur Arnar Kárason bróðir Axels ákveðið að taka fram skónna og ljóst að þessi fjölskylda tekur ekki annað í mál en að hafa ávallt veglegan fulltrúa úr sínum röðum í miðri hringiðu körfuboltans. Arnar hefur tekið fram skónna að nýju og það hefur gefið vel enda fyrsti bikarinn kominn í hús eftir stórsigur KR á ÍR í Reykjavíkurmótinu í gærkvöldi. Karfan.is náði tali af Arnari eftir leik sem aðeins hefur mætt á fjórar æfingar til þessa og því er langt í land hjá þessum knáa bakverði. Arnar er þekktur fyrir fátt annað en eljusemi og því ekki ósennilegt að aðrir bakverðir KR-inga megi leggja sig virkilega mikið fram til þess að halda norðlenska stálinu á tréverkinu.
Það er ekki amalegt að hefja endurkomuna með því að vinna bikar?
,,Nei, þetta var svolítið létt og jafnvel léttara en maður bjóst við,“ sagði Arnar en KR burstaði ÍR 97-56.
Hvernig ertu svo í skrokknum?
,,Ekki alveg nógu góður. Ég fékk smá þarna í annað lærið undir lok leiksins en það er líka bara vika síðan ég byrjaði að æfa og maður verður að gefa þessu smá séns. Vonandi verði ég orðinn góður eftir áramót og helst fyrr. Ég er að taka þátt í þessu af fullum krafti og byrjaði fyrir fjórum æfingum síðan svo núna er maður að glíma við strengi og þreytu,“ sagði Arnar sæll í leikslok og býst hann við spennandi vetri.
,,Þetta verður snilldarvetur og þvílík samkeppni í liðinu á æfingum og ljóst að baráttan verður mikil um spilatíma í vetur. Þetta eru allt strákar sem þekkjast mjög vel og svo einn kani þannig að stemmningin er góð,“ sagði Arnar en hvað var það sem gerði útslagið og fékk hann til þess að taka fram skónna að nýju?
,,Ég hef alltaf gælt svolítið við það en svo þegar ég frétti að Jakob og Jón kæmu aftur í KR og að Fannar, Helgi og félagar yrðu áfram þá kitlaði manni nú ansi mikið svo ég ákvað því að slá til og reyna að hjálpa liðinu,“ sagði Arnar. Aðspurður hvort nú væri ekki bara eðlilegt að spá KR og Grindavík í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn svaraði Arnar:
,,Það er alls ekki óeðlilegt miðað við mannskapinn sem þessi lið eru með. Breiðir hópar, sterkar liðsheildir og sterkir einstaklingar.“