spot_img
HomeFréttirArnar stjórnar ekki félagsliði á næsta ári: Ekki tilbúinn að flytja frá...

Arnar stjórnar ekki félagsliði á næsta ári: Ekki tilbúinn að flytja frá börnunum

Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðsins hefur á síðstu árum einnig stjórnað liði Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni. Hann náði á síðasta tímabili að stýra liðnu í þriðja sætið í deildinni sem besti árangur félagsins í fjögur ár. Félagið ákvað hinsvegar þrátt fyrir árangurinn að endurnýja ekki samning sinn við Arnar og aðstoðarþjálfara hans. 

 

Karfan.is spjallaði við Arnar á dögunum þar sem hann viðstaddur þjálfaranámskeið KKÍ á Íslandi. Hann sagði litlar líkur á því að hann tæki við félagsliði á næsta tímabili. Hann væri búinn að koma sér fyrir í Svendborg og ætlaði að einbeita sér að landsliðsverkefnunum og að sækja sér frekari nám í þjálfarafræðum. 

 

„Ég verð bara áfram án félagsliðs. Ég er ekki tilbúinn að flytja frá Svendborg vegna þess að þar hef ég komið mér ásamt konu og börnum. Svo það þyrfti að vera eitthvað gríðarlega spennandi til að ég myndi flytja frá börnunum og það er ekkert í boði eins og staðan er núna.“ sagði Arnar við Karfan.is í dag. 

 

Opinber ástæða þess að Svendborg ákvað að framlengja ekki við Arnar var sú að þeir vildu ráða þjálfara sem væri ekki í landsliðsverkefnum. Arnar sagði að það væru engar lygar en viðurkenndi þó að hann væri ekki sáttur við að fara frá félaginu eftir árangur vetrarsins. 

 

„Leiktímabilið landsliðsins færist framar yfir veturinn, ég missi af miklu af undirbúiningstímabilinu og svo eru tíu daga gluggar á miðju tímabili svo það er ástæðan fyrir því að Svendborg endurnýjaði ekki samninginn. Þeir hafa boðið mér stöðu aðstoðarþjálfara liðsins en eins og staðan er núna held ég að það sé mjög ósanngjarnt fyrir þann mann sem er að taka við Svendborg að sá sem var að þjálfa liðið sé aðstoðarþjálfari. Ég held að það sé bara mjög óþægileg staða að koma inní og ég er ekki tilbúinn að gera það eins og staðan er núna.“

 

„Ég er auðvitað ekkert sáttur við þetta. Þetta er besta leiktíð sem við höfum átt í fjögur ár og ég hefði viljað meina að við hefðum getað látið þetta ganga upp. Það eru ákveðnir hlutir sem ég var ekkert sáttur við hvernig voru gerðir. Það eru ekkert allir stjórnarmenn alltaf á þínu bandi, þannig er það bara í þessum heimi. Kannski einhverjum þótt þetta þetta vera þægileg leið til að losna við mig. Ég veit það ekki, ég ætla ekki að leggja þeim það orð í munn en þetta er lendingin. Ég verð ekki aðalþjálfari þarna áfram. Ég er ekki einn af þeim sem tel það skipta máli hvort þú ert aðalþjálfari eða aðstoðarþjálfari, það eru allir að vinna að því sama: að gera liðið sem best. Það væri því ansi vond og ósanngjörn aðstaða fyrir þann sem tekur við liðinu að hafa mig sem aðstoðarþjálfara.“

 

Arnar er að sjálfsögðu að undirbúa sig undir stærsta verkefni ársins er landsliðið fer aftur á Eurobasket í septembert næstkomandi. Hann sagði að eftir það myndi þjálfun hjá körfuboltaakademíu í Svendborg taka við en henni stjórnar Craig Pedersen aðalþjálfari landsliðsins og hefur Arnar verið þar með þjálfun á Svendborg. Auk þess hefur Arnar ekki í hyggju að slaka á

 

„Mig langar í pílagrímsferð og í nokkurnvegin endurmenntun. Ég er að leita mér að tengiliðum um heiminn og fá að fylgjast með öðrum þjálfurum í viku. Ég hef þegar sett upp að ég verð hjá Bandarísku háskólaliðið í viku og svo ætla ég að vera um evrópu líka.“ sagði Arnar. 

 

En hvað tekur við hjá Arnar í sumar? Kemst eitthvað annað að en landsliðsverkefnið stóra?

 

„Ég ætla bara strax eftir námskeiðið beint uppí Borgarfjörð og vonandi ekkert að fara þaðan fyrr en fyrsta æfing landsliðsins fyrir Eurobasket verður. Eins og flestir ættu að vita er hvergi betra að vera enn í Borgarfirði.“ sagði Arnar að lokum og glotti. 

 

 

Mynd og viðtal / Ólafur Þór Jónsson

 

 

Fréttir
- Auglýsing -