Ármann heldur áfram að safna liði fyrir komandi tímabil í Bónus deild karla. Í dag hefur liðið tilkynnt að samið hafi verið við Braga Guðmundsson frá Grindavík.
Bragi er ekki eini leikmaðurinn sem samið hefur við Ármann í vikunni en síðustu helgi var tilkynnt að Marek Dolezaj væri á leið til félagsins. Einnig framlengdi Arnaldur Grímsson samning sinn við Ármann
Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur samið við Braga Guðmundsson um að leika með meistaraflokki félagsins á komandi tímabili. Bragi kemur til Ármanns frá Grindavík, þar sem hann lék eftir áramót í fyrra og fór með liðinu í undanúrslit deildarinnar.
Bragi, sem er uppalinn í Grindavík, hefur vakið athygli fyrir íþróttamennsku sína og leikskilning auk þess sem hann hefur reynslu af bandaríska háskólaboltanum. Bragi lék með Penn State háskólanum sem dæmi. Hann kemur með mikla reynslu og kraft í lið Ármanns sem stefnir hátt á næsta tímabili.
Við erum gríðarlega spennt fyrir komu Braga og teljum hann passa vel inní hópinn. Félagið vill gefa ungum strákum tækifæri til að dafna í okkar búning og teljum við á sama tíma að Bragi geti hjálpað félaginu í komandi átökum.
Hann er 21. Árs bakvörður sem leikið hefur með öllum yngri landsliðum Íslands. Bragi skrifar undir eins árs samning við félagið og er klár í slaginn.
Með komu Braga styrkist leikmannahópur Ármanns enn frekar og stuðningsmenn geta hlakkað til spennandi tímabils í Bónus deildinni.
Áfram Ármann