Ármenningar halda áfram að dæla út fregnum af leikmannamálum síns liðs fyrir komandi átök í Bónus deildinni. Í dag var tilkynnt að Frosti Valgarðsson hefði samið við liðið en hann kemur frá Haukum þar sem hann hefur verið síðustu ár en leikið með meistaraflokki Ármanns á venslasamningi.
Ármann hefur á síðustu dögum einnig tilkynnt komu Braga Guðmundssonar og Marek Dolezaj auk þess að Arnaldur Grímsson hefur endursamið við liðið. Félagið er að leika í fyrsta sinn í efstu deild í áratugi og ætla sér greinilega stóra hluti.
Tilkynningu Ármanns má finna í heild sinni hér að neðan:
Með mikilli ánægju getum við tilkynnt að Frosti Valgarðsson hefur skrifað undir samning við Ármann um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Bónus deildinni.
Frosti kemur til liðsins frá Haukum þar sem hann er uppalinn. Hann kom á venslasamningi frá félaginu í desember 2023 og hefur síðan þá leikið með meistaraflokki Ármanns. Á þeim tíma hefur hann verið burðarás í liðinu sem tryggði sæti í efstu deild á nýliðinni leiktíð. Hann hefur nú skrifað undir eins árs samning við Ármann og skiptir að fullu yfir til félagsins. Á lokahófi meistaraflokkana á dögunum var Frosti valinn varnarmaður ársins.
Frosti er gríðarlega metnaðarfullur leikmaður sem við erum stolt af að hafa í okkar liði. Hann hefur verið einn efnilegasti leikmaður landsins síðustu ár og leikið með yngri landsliðum Íslands. Nýlega var Frosti erlendis í körfuboltabúðum með færustu þjálfurum heima þar sem hann æfði við toppaðstæður með m.a. NBA leikmönnum.
Ármann ætlar sér að halda áfram að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að blómstra og fá hlutverk í öflugri umgjörð félagsins. Frosti passar fullkomlega inní þá sýn félagsins og er honum ætlað stórt hlutverk í okkar uppbyggingu.
Frekari fregnir af leikmannamálum félagsins er að vænta á næstu dögum.
Áfram Ármann