Gilbert Arenas og Javaris Crittenton, leikmenn Washington Wizards, voru í dag dæmdir í leikbönn það sem eftir lifir keppnistímabili fyrir að hafa mætt með skotvopn í búningsklefa liðsins.
Þetta er eitt lengsta keppnisbann sem um getur í NBA að undanskuldum þeim sem tengjast eiturlyfjamisferli.
Flestir þekkja málavexti, en byssuleikurinn kom í kjölfar rifrildis sem þeir lentu í vegna spilaskuldar Arenas við Crittenton.
Arenas, sem er þekktur ærslabelgur, sagði að þetta hafi verið sprell sem fór úr böndunum, en svo virðist sem hann hafi loks farið yfir strikið, m.a. þar sem hann sló þessu háalvarlega atviki upp í grín með látbragði fyrir næsta leik eftir að málið var gert opinbert.
Arenas var hérumbil orðin ofurstjarna í NBA fyrir nokkrum árum áður en hann meiddist illa á hné og var frá keppni í meira eða minna tvö ár. Hann ætlaði svo að sanna sig að nýju í ár en verður að bíða með það fram á næsta haust.