Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í þýska liðinu MBC hafa nú tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum í Bundesligunni. Ekkert lát er svo á sigurgöngu Good Angels í Slóvakíu en Helena og félagar unnu um helgina sinn fimmta deildarsigur í röð.
MBC tapaði öðrum leik sínum í þýsku Bundesligunni þegar liðið lá 81-93 á heimavelli gegn Phoenix Hagen. Hörður Axel Vilhjálmsson var ekki í byrjunarliði MBC í leiknum en skoraði 11 stig á 14 mínútum. Hann var einnig með 2 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
Helena Sverrisdóttir og Good Angels Kosice unnu sinn fimmta deildarsigur í röð í Slóvakíu á dögunum. Að þessu sinni mættu Good Angels á útivöll og léku gegn Piestanske Gulls. Lokatölur voru 53-76 Good Angels í vil. Helena var að þessu sinni ekki á meðal stigahæstu manna.