spot_img
HomeFréttirAllt í loft upp varðandi verkefni yngri landsliða - Hannes "Það vill...

Allt í loft upp varðandi verkefni yngri landsliða – Hannes “Það vill enginn missa annað sumar”

Skipulag landsliðsverkefna yngri landsliða komandi sumar er enn óákveðið samkvæmt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ, en ár hvert sendir sambandið undir 15, 16, 18 og 20 ára lið á mót víðsvegar í Evrópu. Samkvæmt Hannesi vinnur sambandið þó að lausnum, bæði með FIBA og kollegum sínum á Norðurlöndunum og er frétta að vænta um hvernig landsliðssumarið verði nú á næstu vikum.

Fyrir yngstu liðin, undir 15 ára, verða líklega engin verkefni. Mótið sem Ísland hefur farið á síðustu ár í Kaupmannahöfn hefur verið blásið af og hafa tilraunir sambandsins til þess að finna annað viðeigandi verkefni ekki borið árangur. Liðið mun þó verða kallað til og verða æfingar á Íslandi í sumar.

Í áraraðir hefur Ísland einnig sent U16 og U18 lið á Norðurlandamótið, sem haldið hefur verið í Kisakallio í Finnlandi síðastliðin fimm ár. Það mót hefur ekki verið blásið af, en samkvæmt Hannesi mun það ekki verða haldið í lok Júní eins og síðastliðin ár, heldur sé verið að líta til næstu mánaðarmóta á eftir, mánaðarmótin júlí/ágúst sem hugsanlega tímasetningu.

Einnig leitar sambandið lausna varðandi Evrópumót U16, U18 og U20 liða Íslands. Segir Hannes að staðan sé ólík varðandi faraldurinn í löndum álfunnar og sé því margt sem taka þurfi inn í reikninginn þegar að kemur ákvörðun um skipulagningu svoleiðis móta með tilliti til ferðalaga. Áhersluna segir hann á að koma á mótum fyrir U20 og U18 liðin, en mögulega verði verkefnin ólík fyrir U16 ára liðin. Til umræðu eru möguleg styrkleika eða svæðaskipt mót, sem væri nokkur breyting á því A, B og C riðla sipulagi sem tíðkast hefur.

Hannes segir að stíft sé fundað þessa dagana varðandi þessi málefni þar sem að allra lausna er leitað og að enginn vilji missa annað sumar vegna heimsfaraldurs Covid-19. Segir hann öruggt að það verði einhver verkefni, spurningin sé bara hvenær.

Æfingahópar undir 18 ára liða Íslands klárir fyrir 2021

Æfingahópar undir 16 ára liða Íslands klárir fyrir 2021

Æfingahópar undir 15 ára liða Íslands klárir fyrir 2021

Fréttir
- Auglýsing -