Gríska landsliðið gefur engan vegin staðið undir væntingum á Eurobasket 2017 en liðið er í A-riðli með Íslandi. Eftir sigurinn á Íslandi í fyrsta leik hefur liðið ekki enn unnið leik og spilar í dag úrslitaleik um að komast áfram í 16 liða úrslit. Það yrði mikill skandall fyrir Grikkland að komast ekki áfram en liðið ætlaði sér stóra hluti á mótinu.
Undirbúningurinn fyrir mótið fór vel var stað og leit liðið ágætlega út. En rúmri viku fyrir fyrsta leik var það tilkynnt að þeirra besti leikmaður og helsta stjarna Giannis Antetokoumpo yrði ekki með vegna meiðsla. Frá þeim fregnum má segja að nákvæmlega allt hafi farið á hliðina.
Vandamál Grikklands og óeining á sér upphaf mun fyrr en þetta. Um mitt sumar samdi körfuknattleikssambandið við Kostas Missas um að taka við þjálfum hjá liðinu eftir miklar vangaveltur fyrir sumarið. Ráðning var heldur betur umdeild enda hefur Missas ekki sýnt mikið sem þjálfari eða þjálfað stór lið áður. Góðir grískir þjálfarar vaxa nánast á trjánum, þjálfarafræðsla og þau mál í Grikklandi þykja með þeim fremstu í Evrópu. Því þótti furðuleg ákvörðun þegar Missas sem hafði helst þjálfað yngri landslið Grikklands var ráðinn en nokkrir góðir kandídatar höfðu sýnt áhuga á starfinu.
Segja má að gríska pressan hafi sett pressu á Missas strax við ráðningu. Eftir tapið gegn Finnlandi í gær þar sem ljóst var að Grikkland væri í stórri hættu að komast ekki uppúr riðlinum fór allt á aðra hliðina í Grikklandi. Grískir fjölmiðlamenn hér í Finnlandi létu menn heldur betur svara fyrir sig í viðtölum eftir leik. Orðaskipti urðu á milli sjónvarpsmanns og Kostas Missas að loknu viðtali við hann. Missas rauk í burtu og eldheitir grískir fjölmiðlamenn vildu enn fleiri svör.
Thanasis Antetokoumpo gekk næst í viðtal og sagði eina setningu: „Þeir sem vilja spila fyrir landsliðið ættu að fá að spila fyrir landsliðið.“ fleiri voru ekki þau orð, gekk hann þá úr viðtali og beint í liðsrútuna. Grískir blaðamenn tóku orðum Thanasis þannig að hann væri að skjóta á liðsfélaga sína sem væru ekki tilbúnir til að leika fyrir land sitt.
Liðsfélagi hans Ioannis Papapetrou virtist ekki sáttur við þessi ummæli frá Thanasis og sagði við gríska blaðamenn: „Þú getur ekki sagt svona. Það er rangt að benda fingrum á einhvern svona. Þú getur ekki gert það. Við eigum stóran leik framunan á morgun og verðum að vera tilbúnir.“
Ofan á allt munu áhagendur gríska liðsins hafa ráðist með orðum að stjórnarmanni körfuknattleikssambandsins eftir tapið í gær. Forseti sambandsins hefur ákveðið að stytta ferð sína til Helsinki um dag og er farinn til Grikklands fyrir síðasta leikinn.
Fyrir mótið bárust einnig fréttir af því að liðsfélagar í liðinu hefðu slegist á hóteli vegna hluta sem voru ekki tengdir körfubolta. Það er því ekki lognmolla í kringum Gríska liðið á Eurobasket. Fróðlegt verður að fylgjast með dramatíkinni fari svo að liðið tapi gegn Póllandi en ljóst er að Pólverjar mæta einnig brjálaðir til leiks.
Blaðamaður Karfan.is stóð í miðjunni á dramatíkinni í gær og varð vitni af því þegar leikmenn og blaðamenn annara þjóða hristu á sér hausinn á meðan á þessu stóð. Mikil reiði var meðal blaðamanna Grikklands og lítið pláss gefið fyrir aðra vinnandi blaðamenn. Grikkland – Pólland er í beinni útsendingu á RÚV kl 14:30 á íslenskum tíma.