Myndarlegt framlag frá öllum 12 leikmönnum U16 ára karlaliðsins var á boðstólunum þegar Ísland skellti Norðmönnum á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Lokatölur reyndust 113-64 Íslandi í vil en þetta er næststærsti sigur drengjalandsliðs frá Íslandi á Norðmönnum. Stærsti sigurinn vannst árið 2000 þegar 1984 árgangur Íslands lagði Norðmenn 100-44 á NM í Danmörku.
Dagur Kár Jónsson tók það að sér að skora sjö fyrstu stig Íslands í leiknum og okkar menn leiddu 7-6. Í stöðunni 10-12 Norðmönnum í vil tók Ingi Þór Steinþórsson leikhlé fyrir Ísland og komið var út með svæðisvörn eftir þann samráðsfund.
Norðmenn voru beittir enda tókst íslenska liðinu ekki nægilega vel að stíga út stóru leikmenn Norðmanna sem áttu frákastabaráttuna skuldlausa fyrstu tíu mínúturnar. Á lokaspretti leikhlutans hrukku okkar menn þó í gang, Christopher Cannon kom svellkaldur af bekknum og smellti niður þrist og slíkt hið sama gerði Oddur Rúnar Kristjánsson skömmu síðar og Ísland leiddi 27-21 að loknum fyrsta leikhluta. Maciej Baginski átti einnig skemmtilegar rispur á upphafsmínútunum og skoraði 7 stig í fyrsta leikhluta.
Norðmenn bitu frá sér á fyrstu andartökum annars leikhluta og Ingi Þór kallaði sína menn í leikhlé. Dagskipunin var klárlega að keyra af harðfylgi inn í teiginn og lokka 206sm háan miðherja Norðmanna, Matz Stockman, til þess að brjóta af sér. Það gekk eftir og á 14 mínútna leik var Stockman kominn með fjórar villur og hélt á bekkinn. Íslenska liðið lét kné fylgja kviði og tóku á rás!
Ísland pressaði vel á bakverði Norðmanna, stálu þremur boltum í röð sem gáfu hraðaupphlaupskörfur og tókur þar leikinn í sínar hendur. Staðan snögglega orðin 37-25 og sjálfstraust íslenska liðsins komið í botn eftir brösugar upphafsmínútur.
Ísland leiddi svo 55-36 í hálfleik þar sem Maciej Baginski var stigahæstur með 15 stig, Oddur Rúnar Kristjánsson 9 og Dagur Kár Jónsson 8 en Dagur haltraði snemma af velli í öðrum leikhluta og kenndi sér eymsla í vinstri ökkla. Hann lék ekki meira í leiknum.
Erlendur Stefánsson kom Íslandi í 64-40 með þriggja stiga körfu en Erlendur var iðinn við kolann í dag á báðum endum vallarins. Yfirburðir íslenska liðsins héldu áfram í þriðja leikhluta og okkar menn skoruðu nánast að vild. Maciej Baginski kom Íslandi í 71-50 með þriggja stiga körfu en það sem eftir lifði leikhlutans lék Þorsteinn Eyfjörð við hvurn sinn fingur, stolnir boltar, varin skot, stoðsendingar og stöku körfur, glæsileg rispa hjá Þorsteini og Ísland leiddi 87-56 fyrir fjórða og síðasta leikhluta, þriðji leikhluti fór því 32-20 fyrir Ísland.
Þorsteinn Eyfjörð var hvergi nærri hættur, skellti niður þrist snemma í fjórða leikhluta og kom Íslandi í 97-58. Eins og gefur að skilja var fjórði leikhluti aldrei spennandi en þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka höfðu allir leikmenn liðsins náð að skora þegar Stjörnumaðurinn Tómas Hilmarsson skoraði í norska teignum.
Lokatölur leiksins reyndust svo 113-64, stórsigur Íslands í fyrsta leik. Oddur Rúnar Kristjánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 23 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og Maciej Baginski bætti við 20 stigum og Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson gerði 16 stig og gaf 2 stoðsendingar. Þeir Christopher Cannon og Erlendur Stefánsson bættu báðir við 12 stigum. Annars stóðu allir sína vakt í dag og þó íslenski hópurinn hefði þurft smá tíma til að hrökkva í gang þá var á lengstum kafla leiksins gaman að sjá vinnusemina í hópnum.
U16 ára lið karla leikur annan leik í dag og þá kl. 16.30 að íslenskum tíma þegar liðið mætir Finnum.
Mynd/ Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson átti flottar rispur í síðari hálfleik með íslenska liðinu.