Þegar flautað var til leiks Þórs og Grindavíkur í kvöld má segja að Þórsliðið hafi verið komið með bakið upp að vegg og ekkert annað en sigur dugði liðinu til þess að halda í þá von að spila í deild þeirra bestu á næsta tímabili.
Gestirnir úr Grindavík hófu leikinn af miklum krafti og náðu fljótlega góðum tökum á leiknum og leiddu eftir fyrsta leikhlutann með tólf stigum 15-27. Þórsarar voru ávallt skrefi of seinir í vörnina og Grindvíkingar fengu allt of margar auðveldar körfur. Segja má að leikurinn hafi ögn jafnast í öðrum leikhluta sem Þórsarar unnu með fjórum stigum 23-19 en staðan í hálfleik var 38-46. Eins og kemur fram hjá Lárusi í viðtali sem Haraldur Ingólfsson í leiksloka munaði mjög um þessar auðveldu körfur sem Þórsarar gáfu sem skiluðu m.a. því að Seth Christian skoraði 20 stig í fyrri hálfleik.
Þótt staðan hafi verið orðin dökk um tíma í öðrum leikhluta þegar forskot gestanna var komið í átján stig 17-35 hóf Þór síðari hálfleikinn af krafti. Aukið sjálfstraust sem kom í liðið á lokakafla annars leikhluta fylgdi liðinu inn í þriðja leikhlutann. Leikmenn Þórs greinilega ekki tilbúnir að leggja árar í bát. Munurinn á liðunum var oftast á bilinu 4-9 stig og sem fyrr voru það gestirnir sem leiddu. Þór vann leikhlutann með einu stigi 23-22 og staðan þegar fjórði leikhlutinn hófst sjö stig 61-68.
Leikurinn er ekki búinn fyrr en hann hefur verið flautaður af og þangað til er vissara að hætta ekki fyrr en lokaflautið gellur. Fjórði leikhlutinn var sannkallaður rússíbani þar sem lokamínúta leiksins var hreint út sagt ævintýraleg og vart fyrir hjartveika.
Þegar fjórði leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir þrettán stiga forskot 67-81 og sennilega ekki margir sem hefðu þá tippað á heimasigur. En lokakaflinn var æsilegur innan vallar sem utan. Þórsliðið setti í fluggírinn og það sem eftir lifði leiks skoraði Þór tuttugu og tvö stig gegn fimm gestanna. Þegar rúm mínúta lifði leik var munurinn þrjú stig 83-86. Hansel og Jamal skoruðu næstu tvær körfur og komu Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar 15 sekúndur lifðu leiks 87-86. Hansel skoraði svo síðustu þrjú stig leiksins af vítalínunni. Miljan Rakic braut þar á Hansel og fékk tæknivillu í kjölfarið. Hansel setti öll þrjú vítin niður og tryggði Þór þar með þriggja stiga sigur 89-86.
Þórsliðið sýndi frábæra baráttu í síðari hálfleik og sigurinn var liðsheildarinnar. Og þótt áhorfendur hafi verið færri í kvöld en á flestum leikjum vetrarins, sem kenna má hinu óvenjulega ástandi í þjóðfélaginu voru þeir hreint út sagt geggjaðir. Þeir líkt og leikmenn Þórs höfðu greinilega trú á verkefninu sem skilaði sér í sigri, sem gefur mönnum von sem veganesti í lokaleik tímabilsins.
Bestur í liði Þórs í kvöld var Hansel Atencia með 28 stig og 7 fráköst. Þá var Pablo með 14 stig og 17 fráköst, Jamal Palmer 13 stig, Júlíus Orri 12 stig, Terrace 10 stig og 7 fráköst, Mantas 10 stig og 10 fráköst og Kolbeinn Fannar 2 stig. Þeir Erlendur Ágúst og Baldur Örn komu einnig við sögu en náðu ekki að skora.
Hjá Grindavík var Seth með 28 stig og 6 fráköst, Ingvi Þór 18 stig 7 fráköst og 8 stoðsendingar, Valdas Vasylius 14 stig, Ólafur Ólafsson 10 stig og 6 fráköst, Sigtryggur Arnar 8 stig 5 fráköst og 4 stoðsendingar, Björgvin Hafþór og Miljan Rakic 3 stig hvor og Nökkvi Már með 2 stig.
Þegar ein umferð er eftir af deildinni er Þór sem fyrr í ellefta sæti deildarinnar með 12 stig tveimur stigum á eftir Val og Þór úr Þorlákshöfn. Möguleikar Þórs á að spila í deild þeirra bestur á næsta tímabili felst í því að vinna KR í lokaleiknum og treysta á hagstæð úrslit annarra leikja.
Viðtöl / Haraldur Ingólfsson
Umfjöllun, myndir / Palli Jóh