spot_img
HomeFréttirÆgir Þór fyrir ferð Íslands til Bratislava "Verður áskorun að mæta í...

Ægir Þór fyrir ferð Íslands til Bratislava “Verður áskorun að mæta í svona leiki án þess að hafa æft”

Íslenska karlalandsliðið heldur til Slóvakíu nú í lok mánaðar til þess að leika tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Fara leikirnir báðir fram í sóttvarnarbólu FIBA, en sá fyrri er gegn Lúxemborg þann 26. og seinni gegn Kósovó 28. nóvember.

Karfan setti sig í samband við leikmann liðsins Ægir Þór Steinarsson og spurði hann út í ferðina og leikina tvo sem Ísland spilar.

Hvernig líst þér á þetta lið sem kallað hefur verið saman fyrir Slóvakíu?

“Mér líst vel á þetta lið enda mjög svipað lið og var í síðasta glugga. Mikilvægt væri að byggja ofan á spilamennskuna frá því síðast”

Hverjir eru helstu veikleikar/styrkleikar ykkar?

“Fyrst og fremst er leikformið ekki upp á besta hjá mörgum, en það er fljótt að koma með þessum æfingum sem við fáum í aðdraganda leikjanna. Styrkleikinn er að þetta er breiður hópur af leikmönnum sem hafa hæfileika og reynslu að spila alvöru mínútur í landsleikjum”

Verður ekkert erfitt að fara í leiki eftir að hafa verið meinuð aðganga að æfingum upp á síðkastið?

“Það verður áskorun að mæta í svona leiki án þess að hafa æft mikið körfubolta, en ætli maður verði að ekki að tileinka sér það hugarástand að mikla það ekki fyrir sér. Einbeita sér frekar að standa sig vel og sigra þessa mikilvægu leiki hvernig sem það verður gert”

Hvað finnst þér um að FIBA krefjist þess að þið spilið þessa leiki í þessu Covid-19 ástandi?

“Ég held að FIBA sé að ekki að krefjast þess að við tökum þátt, við getum alveg sniðgengið þessa keppni ef okkur listir. En staðan er sú að við gerum það ekki og flestir leikmenn eru að gefa kost á sér. Okkur þyrstir í körfubolta og menn eru klárir í þessa leiki”

Hverjir eru möguleikar Íslands í leikjunum tveimur?

“Við eigum góðan möguleika að vinna þessa leiki en það verður alls ekki auðvelt. Ég tel það mikilvægt að hafa úthald í svona leiki og að fylgja leikplaninu”

Við hverju mega íslenskir aðdáendur búast af ykkur í þessum leikjum?

“Við verðum nokkrir þarna eins og beljur á vorin og leikgleðin verður samkvæmt því. Þeir mega búast við sprækum drengjum sem eru þakklátir að komast í smá bolta, en svo barátta, vilji og hjarta og allt það”

Fréttir
- Auglýsing -