spot_img
HomeFréttirÆgir stýrði skútunni óaðfinnanlega

Ægir stýrði skútunni óaðfinnanlega

ÍR-ingar geta komið sér í úrslit í Dominos-deildinni á þessu tímabili með sigri í Hertz-hellinum á Stjörnunni í kvöld. Með öðrum orðum, ,,bara“ með því að sigra einn heimaleik geta ÍR-ingar boðið upp á mestu tíðindi í körfuboltasögunni! Stjörnuliðið hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit í síðustu tveimur leikjum en vörn ÍR hefur gert vinnuna hundleiðinlega fyrir Ofurmennið, Finnska Undrið og fleiri snillinga í herbúðum Garðbæinga. En ef Stjörnumenn ná vopnum sínum á ný og finna gleðina þá er nú bara ekkert bara….

Spádómskúlan: Kúlan hefur verið í tómu rugli í allan vetur og Andspádómskúlan væri frekar réttnefni. Það er fyndið að inna hana eftir svari samt sem áður. Þetta hafði hún að segja: ,,Þú heldur að þú sért voða sniðugur? Ég sé ótal myndir sem benda allar í sömu áttina – ÍR-ingar vinna 73-70 því það skiptir engu máli hvað gengur á í lífinu, ALDREI veðja gegn ástríðunni!“ Sagði kúlan sem er kannski aðeins að missa sig í tilfinningaseminni…

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Siggi, Fissi Kalli, Matti, Capers

Stjarnan: Hlynur, Kramer, Ægir, Antti, Rozzell

Gangur leiksins

Leikurinn rúllaði ÍR-ingum í hag fyrstu tvær mínúturnar og staðan 0-0! Þristur frá Robinson braut svo ísinn og allt trylltist í pökkuðu húsinu. Ægir tók þá til sinna ráða fyrir gestina og dansaði alla ÍR-inga ringlaða ítrekað og skoraði og skoraði. Rétt eftir miðjan fyrsta leikhlutann syrti enn í álinn fyrir heimamenn, staðan 7-12, Ægir þar af með 10, og Capers kominn á bekinn með 2 villur. Stjarnan leiddi 16-26 eftir einn.

ÍR-ingum hafði gengið bölvanlega að skora og það gekk lítið betur í öðrum leikhluta. Að vísu eru heimamenn vanir því en Ægir var enn heitur og Rozzell komst inn í leikinn. Það þýddi að Stjörnumenn voru snöggir að koma sér í 15 stiga forskot og nú var þörf á ákafri ástríðu. Capers hjálpaði sínum mönnum sóknarlega og ÍR-ingum tókst að minnka muninn í 36-45 þegar nokkrar sekúndur lifðu af öðrum leikhluta. Það var kannski í takt við leikinn að Ofurmennið setti þrist á klukkunni og tryggði gestunum 12 stiga forystu, 36-48 í leikhléi. Ægir var með kominn með heil 19 stig og Rozzell 14.

Heimamenn mættu eldhressir eftir pásuna og á 2 mínútum og 20 sekúndum minnkuðu ÍR-ingar muninn í 44-48. Hver annar en Ægir kom þá sínum mönnum á blað í síðari hálfleik, bætti við þristi og Bæringsson saltaði í þetta með öðrum skömmu síðar. Staðan var þá 44-58 og skyndilega enn verra í sjóinn fyrir ÍR-inga en í hálfleik. Sóknarlega voru hlutirnir að ganga örlítið betur hjá heimamönnum en boltinn vildi yfirleitt ekki sjá það að fara í gegnum hringinn, ekki einu sinni í vítunum. Þrátt fyrir allt seigluðust heimamenn áfram og munurinn var undir 10 stiga múrnum fyrir lokafjórðunginn, staðan 57-65.

Fjórði leikhluti var ekki alveg sama brjálaða veislan og margir voru að vonast eftir. Fyrir Stjörnumenn var hann nokkuð þægilegur þar sem munurinn hékk í 10 stigum og óþarfi að missa meðvitund af spennu. Ægir stýrði skútunni frábærlega, Rozzell var tengdari en í undanförnum leikjum og fleiri leikmenn mætti nefna sem lögðu sitt af mörkum við róðurinn. ÍR-ingar minnkuðu muninn mest niður í 8 stig, 70-78, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þeir fengu tækifæri til að gera betur en tóku þá upp á því að fleygja þremur boltum í röð í hafið! Með þrjár mínútur á klukkunni, þremur töpuðum boltum og þremur sóknum undir var ljóst að sigurinn yrði gestanna. Lokatölur 75-90 og menn geta farið að gera sig klára í bátana fyrir oddaleik!

Maður leiksins

Ægir var algerlega geggjaður í þessum leik! Hann skoraði 34 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Að ætla að stoppa þennan eldsnögga meistara með Antti og Rozzell sér við hlið er vægast sagt snúið verkefni.

Kjarninn

Stjörnuliðið náði einfaldlega að finna svör við varnarleik ÍR-inga í kvöld. Í hverju þau svör fólust getur Arnar sagt ykkur (sem hann mun reyndar aldrei gera) eða mögulega Finnur Freyr. Vörn Stjörnunnar hélt aftur á móti mjög vel og sókn ÍR-inga eins og míglekur árabátur á löngum köflum. Stjörnumenn hafa afar vel skipað lið og þessir kappar ætla að verða Íslandsmeistarar. Sennilega skiptir engu máli þó helstu kappar liðins hafi ekki æft upp alla yngri flokka Stjörnunnar, þeir hafa keppnisskap og ástríðu fyrir leiknum. Samkvæmt viðtali við Hlyn Bærings eftir leik er í það minnsta erfitt að komast að annarri niðurstöðu…

ÍR-ingar unnu Njarðvík tvisvar í Njarðvík, í seinna skiptið í oddaleik. Þeir hafa þegar unnið einn leik í MG-höllinni. Undirritaður spurði Matta eins og fífl hvort ÍR-ingar hefðu trú á sigri í oddaleik gegn Stjörnunni. Auðvitað hafa þeir það og vonandi fáum við geggjaðan leik, hvernig sem sjóferðin endar!

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson

Fréttir
- Auglýsing -