spot_img
HomeSubway deildinÆfingaleikur: Fjölnir-ÍR

Æfingaleikur: Fjölnir-ÍR

Fjölnir tók á móti ÍR í Egilshöll í dag í leik innan Reykjavíkurmótsins, æfingamóts liða á Höfuðborgarsvæðinu. Leikurinn átti að fara fram í Seljaskóla en þar sem verið er að setja upp nýja skortöflu þurfti að flytja leikinn í Egilshöllina, sem er þó ekki heimavöllur Fjölnismanna, enda spila þeir yfirleitt í Dalhúsum.

Það var viss haustbragur á spili beggja liðanna en Fjölnir virtist þó vera komnir lengra í sínum undirbúningi, enda voru þeir sterkari í leiknum og tóku öll völd í seinni hálfleiknum. Úr nokkuð jöfnum leik í hálfleik settu Fjölnismenn í hærri gír og unnu að lokum sannfærandi, 95-74.

Fyrir leikinn

Fjölnir komst aftur upp í úrvalsdeild á eftir að hafa verið í 1. deild karla í þó nokkur ár. Þeir hafa verið að styrkja sig í ár og þar ber helst að nefna Victor Moses, 201 cm Bandaríkjamann, og Jere Vucica, 206 cm króatískan framherja. Þeir höfðu líka fengið aftur flestalla frá því í fyrra, Róbert Sigurðsson, Vilhjálm Theodór Jónsson og Srdan Stojanovic þar fremstir í flokki. Eftirtekt vakti að Orri Hilmarsson var hvergi sjáanlegur í leiknum.

Hjá ÍR hefur orðið mikið rót frá því á seinasta tímabili. 5 af 7 mínútuhæstu leikmönnum 2018-2019 tímabilsins hafa yfirgefið liðið eftir að ÍR var einum sigri frá því að verða Íslandsmeistarar gegn KR-ingum í fyrra. ÍR hefur bætt við sig Collin Pryor, fyrrum Stjörnumanni sem hefur spilað með íslenska landsliðinu, Evan Singletary, bandarískum leikstjórnanda og hinum búlgarska Georgi Boyanov.

Gangur leiksins

Bæði lið byrjuðu ágætlega en Bandaríkjamenn beggja liða létu mikið fyrir sér fara í fyrsta leikhluta, enda skoraði Victor Moses 14 stig fyrir Fjölni á fyrstu 10 mínútunum og Evan Singletary í ÍR svaraði með 16 stigum fyrir gestina. ÍR náði að dreifa stigaskorinu milli sinna leikmanna aðeins betur eftir leikhlutaskiptin og gátu aðeins saxað niður forskotið sem Fjölnir hafði eftir fyrsta leikhlutann.

Fjölnismenn fóru að láta meira til sín taka í þriðja leikhlutanum og Moses fór hamförum í leikhlutanum fyrir gulklæddu gestgjafana. Hann skoraði 17 stig af 21 stigum liðsins sín í leikhlutanum á meðan að ÍR átti í miklu basli með að skora og fengu þó nokkur hraðaupphlaup á sig eftir tapaða bolta. Gestirnir gátu aðeins skorað 12 stig í leikhlutanum svo staðan var orðin 69-55 fyrir seinasta fjórðunginn.

Erfiðleikar ÍR-inga héldu áfram í fjórða leikhluta, enda þurfti Evan Singletary að yfirgefa völlinn með 5 villur eftir nokkrar mínútur og Fjölnir hélt áfram að hlaða ofan á forskotið. Þeir tóku meðal annars 13-2 áhlaup í leikhlutanum og ÍR þurfti að lokum að sætta sig við 21 stig tap, 95-74.

Lykillinn

Victor Moses átti flottan leik gegn ÍR í dag og skilaði hvorki meira né minna en 39 stigum í leiknum. Hann setti fjórar þriggja stiga körfur og stal nokkrum boltum og var fyrirferðarmikill bæði innan og utan vítateigsins.

Jure Vucica skoraði ekki mikið í leiknum en sýndi mikla íþróttamennsku, þar á meðal með því að elta niður varið skot í hraðaupphlaupi hjá Georgi Boyanov og með hrikalegri troðslu beint úr hraðaupphlaupi (og villu þar að auki)! Augljóslega mikill gormur og 206 cm í þokkabót!

Skor leikmanna

Fjölnir: Victor Moses 39 stig, Róbert Sigurðsson 19 stig, Jere Vucica 12 stig, Vilhjálmur Theodór Jónsson 10 stig, Srban Stojanovic 8 stig, Victor Stephensen 4 stig og Hlynur Logi Ingólfsson 3 stig.

ÍR: Evan Singletary 24 stig, Georgi Boyanov 14 stig, Collin Pryor 8 stig, Ingvi Rafn Ingvarsson 7 stig, Daði Berg Grétarsson 6 stig, Einar Gísli Gíslason 6 stig, Sæþór Elmar Kristjánsson 5 stig, Arnór Hermansson 2 stig, Trausti Eiríksson 2 stig.

Hvað vann leikinn?

Skotnýting Fjölnis hafði mikið að segja í leiknum, en þeir settu 11 þrista gegn aðeins 5 þristum ÍR-inga. Grafarvogspiltarnir hlupu mikið á Breiðhyltinga sem skilaði ýmist auðveldum körfum eða villum og vítaskotum. Þar að auki áttu gestirnir úr Breiðholtinu í miklu basli með Moses og Vucica, sem nýttu hæð sína og styrk gegn minni framherjum ÍR.

Næstu leikir

Fjölnir keppir næst á Icelandic Glacial mótinu í Þorlákshöfn 18.-22. september og keppir þar við Þór Þorlákshöfn, Njarðvík og Grindavík kl.18:00 dagana 18., 20. og 22. september. Eftir það tekur Reykjavíkurmótið aftur við með heimaleik gegn KR í Dalhúsum 25. september kl.18:15.

ÍR á næst leik við Val í Hertz-Hellinum í Seljaskóla þann 17. september kl.19:15. Tveim dögum seinna (19. september) kl.18:30 halda þeir svo í DHL-Höllina til að keppa við KR.

Fréttir
- Auglýsing -